Stanley Tucci dásamar Ísland

Bandaríski leikarinn Stanley Tucci frumsýndi á dögunum glænýja þáttaröð fyrir CNN, Searching for Italy, þar sem hann skoðar ítalska matarmenningu og þann sess sem hún skipar. Tucci kveðst vera mikill unnandi Ítalíu en í viðtali við tímaritið Condé Nast Traveler stóðst hann ekki mátið að undirstrika annað land sem hefur reynst honum afar hugleikið: litla Ísland.

Tucci átti erindi til Íslands fyrir sex árum síðan, nánar til tekið til Egilstaða, þegar hann fór með hlutverk í sjónvarpsþáttunum Fortitude. Segir Tucci í samtali við ofannefndan miðil að tökustaðurinn hafi verið það sem fyrst og fremst heillaði hann við hlutverkið.

„Ég féll alveg fyrir þessu landslagi,“ segir Tucci. „Það eru upplifanir sem þessi sem spila inn í það hvers vegna mig langaði alltaf að verða leikari. Maður ferðast til alls konar staða sem manni hefði annars aldrei dottið í hug að heimsækja.

Ég býst við að fólk vilji að ég tali um Ítalíu [í þessu viðtali] og ég gæti svo sannarlega gert það í heillangan tíma, en ég get ekki hætt að hugsa um þessa ferð til Íslands. Það er eitthvað svo gífurlega grípandi við þennan stað. Þegar faraldurinn er afstaðinn langar mig að fara þangað aftur með börnunum mínum. Það er einhver skuggalegur bragur á landinu, en að sama skapi ótrúlega hvöss fegurð.“

Tucci hefur farið yfir víðan völl og þekkja hann eflaust margir úr kvikmyndunum Big Night, Road to Perdition, The Devil Wears Prada, Julie & Julia, The Hunger Games-myndunum, Spotlight og nýverið The Witches. Tucci var tilnefndur til Óskarsverðlauna árið 2010 fyrir hlutverk sitt í myndinni The Lovely Bones.

Í viðtalinu segir segir leikarinn einnig frá upplifun sinni á gistihúsinu Lake Hotel á Egilsstöðum. Fyrst sagðist leikarinn hafa verið skeptískur og óviss um hvað tæki við. „Ég gisti á þessu litla, krúttlega hóteli og hugsaði með mér: Almáttugur! Hvað í ósköpunum er hægt að gera hérna? Svo komst ég að því að þetta var gamalt bóndabýli sem hafði verið breytt í hótel. Sama fjölskyldan hafði sinnt því síðan undir lok nítjándu aldar. En þarna var ég, á göngu um þetta svæði og sé þá norðurljósin, á meðan ég gisti í rúmlega aldargömlu bóndabýli, og gæði mér síðar á hreindýrakjöti og humarréttum. Ég gat hreinlega ekki kvartað. Þetta var stórkostlegt allt saman.“