Stjörnustríðsmyndir í þrívídd frá og með 2012

Enn ætlar George Lucas að mjólka Star Wars myndaflokkinn, sem ætti að kæta aðdáendur myndanna um allan heim. Nú hefur verið tilkynnt um útgáfu allra sex Star Wars myndanna í þrívídd frá og með árinu 2012, en gefa á út eina mynd á ári í sex ár. Fyrsta myndin sem kemur út á 3D verður The Phantom Menace.

Þó að lengi hafi verið talað um að þrívíddarútgáfur af myndunum yrðu gerðar, þá var Lucas greinilega að bíða eftir að það væri nógu mikið af 3D bíóum í boði til að þetta svaraði kostnaði.

Það er Fox kvikmyndaverið sem mun setja myndirnar á markað, en Fox gaf út allar upprunalegu Star Wars myndirnar.

The Phantom Menace, sem var frumsýnd árið 1999, kæmi eins og fyrr sagði út árið 2012, en svo kæmu myndirnar út í réttri tímaröð, alltaf á sama tíma á hverju ári, en þó með þeim fyrirvara að það fer eftir hvernig fólk mun taka fyrstu myndinni þegar hún verður sýnd. Þetta þýðir að upprunalegi Star Wars þríleikurinn, mun ekki byrja í sýningum fyrr en árið 2015.

Umbreyting hverrar myndar yfir í 3D tekur um eitt ár í vinnslu, og mun Lucas sjálfur fylgjast náið með ferlinu, að því er segir í frétt Hollywood Reporter. Lucas hefur sagt að Avatar hafi sannfært hann um að Star Wars væri nú tilbúið til að fara í alvöru 3D vinnslu.

Það er þó fleira en 3D bíóin sem ráð því að Lucas fer af stað núna með þrívíddarútgáfurnar. Þrívíddarsjónvörp eru að ryðja sér til rúms, sem þýðir að þegar Star Wars 3D er komið í bíó er hægt að selja myndirnar áfram í þrívíddarsjónvörp.

Ímyndið ykkur bardaga eins og þennan úr The Phantom Menace í þrívídd!