TÍAN: Bíóárið 2010!


Betra seint en of seint. Mér hefur alltaf fundist þægilegra að gera topplista yfir bestu myndir ársins sem var að líða í kringum febrúar-mars í staðinn fyrir áramótin eins og flestir gera. Það fylgir því bara að búa á þessu litla landi þar sem megnið af góða efninu er ekki gefið út fyrr en í kringum Óskarstímann. Sem kvikmyndanörd finnst mér líka asnalegt að búa til topplista og ekki miða við framleiðsluár heldur árið sem þær voru gefnar út á landinu. Ég fæ einfaldlega kjánahroll yfir tilhugsuninni að sjá t.d. The Road, The Blind Side og Precious á topplistum ársins 2010 þegar það stemmir ekki við árgerðina. Þetta er að sjálfsögðu nitpick á svipuðum mælikvarða og hvenær nýr áratugur byrjar (ég segi 2010, ekki 11!!) en allir bíófíklar kannast svosem við þetta.

2010 var gott ár fannst mér; Byrjaði illa og bíósumarið var á mörkum þess að vera jafn lélegt og árið 2001 (sem er versta bíósumar sem ég man eftir) þar til nokkrir gullmolar stigu fram, en bara nokkrir. Svo kom haustið og þá fór góðum bíóferðum fjölgandi og það sem ég dýrka við þetta Óskarstímann núna er að það er mikill fjölbreytileiki, svona svipað og í fyrra, annað en t.d. árið 2008 þar sem eiginlega allar tilnefndu Óskarmyndirnar voru þungar, niðurdrepandi nema sú sem vann.

Ég tel 2010 vera aðeins betra ár heldur en ´09 því á því ári tókst mér ekki að finna eina mynd sem náði 10 stjörnu einkunn. Á þessu ári voru þær tvær. Aftur á móti voru slæmu myndirnar alveg guðdómlega lélegar og þess vegna þótti mér miklu sársaukafyllra að setja saman þennan botnlista heldur en þann sem ég gerði í fyrra.

Hér koma fyrst…

.:10 BESTU MYNDIR ÁRSINS 2010:.

Runner-up myndir: Easy A, Harry Potter 7 og hálfur, How to Train your Dragon, The Ghost Writer, 127 Hours, Frozen, Let Me In og Never Let Me Go (ath. þessar tvær síðustu eru sitthvorar myndirnar :þ )

10. ÓRÓI

Drykkja, gredda, fordómar, kvíði, viðkvæm leyndarmál, afskiptasemi foreldra, afbrýðissemi ásamt fullt af öðrum þemum er það sem gerir þessa hormónasúpu svo trúverðuga. Þessi mynd markmiðum sínum mun betur en ég þorði að ímynda mér fyrirfram. Hvað íslenskar myndir varða er hún með þeim betri sem ég hef séð í langan, langan tíma. Hún er bara eitthvað svo einlæg, sönn, kómísk en samt svo bítandi. Þetta er myndin sem hin misheppnaða Gemsar (2002) reyndi að vera. Ef Baldvin Z gerir aftur mynd sem er jafn góð og þessi, þá er hann orðinn að gersemi íslenskri kvikmyndagerðar.

9. THE KING´S SPEECH

Án efa stærsta Óskarsbeita ársins, en athyglina á hún samt vel skilið. Þetta er svona mynd sem er ómögulegt að finnast ekki góð, a.m.k. ef þú ert einn af þeim sem þekkir góða mynd í sundur frá slakri. Hún er faglega unnin, frábærlega leikin en umfram allt fróðleg og skemmtileg. Það er mjög sjaldan hægt að segja að fágað, sögulegt drama sé einhvers konar feel-good mynd en hér er fullyrðingin alls ekki óviðeigandi. Colin Firth er líka magnaður og Geoffrey Rush varla síðri. Saman eiga þeir myndina umhugsunarlaust.

8. THE TOWN

Ef Ben Affleck getur gert klisjukennda sögu svona góða þar sem öflugar frammistöður finnast við hvert horn, þá vil ég meina að hann sé frábær leikstjóri. The Town er mestmegnis í höndum leikaranna sinna og þeir eru einmitt það sem gera gott að einhverju svo miklu, miklu betra. Þetta er ein af þessum vönduðu myndum sem mainstreamið getur metið jafn mikið og dómharðir kvikmyndaunnendur. Flestir leikstjórar sem hafa starfað lengi myndu teljast heppnir að hafa mynd eins og þessa og Gone Baby Gone á ferilskránni en Affleck er víst bara rétt að byrja.

7. KICK-ASS

Annar af tveimur nördakokteilum ársins sem gekk brjálæðislega vel upp. Kick-Ass er undarleg mynd að því leyti að hún tekur sig bæði alvarlega ásamt því að vera satíra á sama tíma. Húmorinn, ofbeldið, persónurnar, tónlistin og almennt fílingurinn sér til þess að það er ekki stök sena sem lætur manni leiðast.

6. SHUTTER ISLAND

Er ég sá eini sem finnst eins og þessi mynd hafi bara alveg gleymst? Hún er svo æðislega „múdí,“ retró, vel skrifuð, spennandi og dularfull. Endirinn er kannski fyrirsjáanlegur en það sem liggur á bakvið hann er það skiptir mestu máli og krafturinn er rosalegur. DiCaprio hefur aldrei staðið sig betur að mínu mati.

5. BLACK SWAN

Aronofsky, meistarinn þegar kemur að tilfinningalegu kaosi, kemur enn og aftur með mynd sem grípur þig. Black Swan grípur þig vegna þess að hún er erfið, falleg, hrollvekjandi, djúp og síðast en ekki síst FULLKOMLEGA leikin. Endirinn gaf mér mikla gæsahúð og eftir myndina sat ég fastur löngu eftir að kreditlistinn var byrjaður. Ef það er ekki merki um gæðamynd þá hef ég ekki hugmynd um hvað orðið þýðir.

4. SCOTT PILGRIM VS. THE WORLD

„Hin“ nördamyndin á listanum/árinu og ábyggilega sú mynd sem sá oftast í bíó í fyrra. Þú annaðhvort elskar hana útaf frumleikanum, húmornum og keyrslunni eða dissar hana fyrir að vera einhvers konar „hipster“ sorp. Edgar Wright lagði sig allan fram til að gera myndina eins og hann vildi hafa hana og það er algjörlega vanmetið hversu mikil vinna fór í hana. Af öllum Kvikmyndir.is forsýningum sem við höfum tekið voru viðtökurnar á þessari sterkastar og sjaldan hef ég orðið vitni af klappi eins oft í salnum á einni mynd. Öfunda ykkur svo mikið sem sáu hana í fyrsta sinn þar!

3. TOY STORY 3

Ég hló, ég grét, ég klappaði. Án efa ein skemmtilegasta mynd Pixar-kompanísins og hún er allt það sem fjölskyldumyndir eiga að vera. Hún er ein af þessum myndum sem nær til þín hvort sem þú ert 3 ára eða 93 ára.

2. INCEPTION

Þegar ég sá þessa fyrst var ég 120% viss um að ég ætti ekki eftir að sjá betri mynd á öllu árinu, og það munar einungis um hársbreidd að hún nái sæti nr. 1. Annars er lítið hægt að segja um hana sem hefur ekki verið margoft sagt. Þeir sem elska þessa mynd eeeeeeeeeeeeelska hana, og þeim sem finnst hún ofmetin elska að auglýsa það og gera grín að henni með stanslausu nitpick-i. Það sem ég persónulega elska við myndina er handritið, strúktúrinn og spurningarnar sem hún skilur eftir sig. Christopher Nolan bjó hér til gríðarlega svala og spennandi hasarmynd fyrir hugsendur en undir yfirborðinu er um mjög athyglisverða karakterstúdíu að ræða. Það er endalaust hægt að pæla í myndinni og fá fleira en eina niðurstöðu (alveg sama hvað aðstandendur hafa opinberlega sagt) og hún hefur þar að auki þrusugott „replay value.“

1. THE SOCIAL NETWORK

Að velja á milli þessarar myndar og Inception var skelfilega erfitt. Báðar myndirnar eru svo lagskiptar og athyglisverðar en samt svo gerólíkar. Handrit þessara mynda voru þau bestu á öllu árinu þó svo að styrkleikarnir höfðu verið á sitthvorum stöðunum. Inception er breiðari, útpældari og meira spennandi á meðan The Social Network býr nánast til heilan concert úr einungis díalog. Að lokum valdi ég The Social Network því hún er örlítið merkilegri, þýðingameiri og á endanum áhrifaríkari. Ég varð gjörsamlega ástfanginn af henni og álit mitt hefur ekkert lækkað. Aron Sorkin er einstakur penni sem skrifar samtöl betur en flestir aðrir og býr til skemmtilegan ryþma úr þeim. Ég hef samt sýnt verkum hans mismikinn áhuga. Ég fíla t.d. West Wing en var ekkert of hrifinn af Charlie Wilsons War. The Social Network sameinar æðislegan díalog við gríðarlega athyglisverða sögu og sýnir David Fincher myndinni svo mikla umhyggju að maður finnur sterkt fyrir henni. Leikurinn er síðan óaðfinnanlegur, tónlistin GEÐVEIK, kvikmyndataka og klipping frábær svo ekki sé minnst á það að myndin heldur fullkominni lengd án þess detta út í dauðan kafla í hálfa mínútu. Ég get ekki kalla þig kvikmyndaáhugamann ef þú gafst skít í þessa mynd þegar hún kom út, og hvað þá ef þú hefur ekki enn séð hana.

Hörkum okkur síðan í gegnum…

10 VERSTU MYNDIR ÁRSINS 2010
(sú versta er auðvitað neðst)

10. SEX AND THE CITY 2

Sarah Jessica Parker: „hey, ég veit! Hvað með að Paramount borgi ráááándýra ferð til Abu Dhabi og á meðan við erum þar getum við tekið upp framhaldsmyndina okkar, þrátt fyrir að öllum sé skítsama um okkur lengur!“

Leikstjórinn: „Snilldarhugmynd. Gerum þetta!“

9. LEAP YEAR

Ég dýrka Amy Adams venjulega en í þessari mynd langaði mig til að kasta einhverju í hana.

8. SAW (3D):THE FINAL CHAPTER

Aðstandendur biðu með stærstu pyntinguna þar til síðast, og það var þessi mynd. Hvílík dirfska að ljúka 7 mynda seríu með því að skilja eftir fleiri spurningar en hún svarar.

7. LIFE AS WE KNOW IT

Rómantísk æla sem var einungis púsluð saman úr klisjuleifum. Josh Duhamel þarf að klifra ansi hátt upp til að ég gleymi þessari mynd ásamt When in Rome, sem báðar komu út á sama ári.

6. SPLICE

Ég er ábyggilega sá eini sem þoldi ekki þessa mynd. Mér fannst hún hæg og bara skrambi leiðinleg og svo þegar eitthvað fór loks að gerast fór mig frekar að langa að horfa á Species aftur.
Myndin má samt eiga eitt; Hún inniheldur einhverja mest „fucked up“ kynlífssenu sem ég hef séð síðan… öh…

5. JONAH HEX

Til leikstjóra myndarinnar: Ef þér tókst að klúðra hasarvestra (sem byggður er á myndasögu) með Josh Brolin í aðalhlutverki svona allsvakalega þá áttu ekkert erindi í þessum bransa. Myndin hefði átt að vera töff og skemmtileg afþreyingarmynd. Í staðinn var hún bara kjánaleg, óspennandi, hörmulega klippt og grútleiðinleg frá A-Ö.

4. VAMPIRE´S SUCK

Sömu svokölluðu leikstjórar og gerðu Epic Movie og Meet the Spartans. Þarf nokkuð að segja meira?? Ég hló mun meira að Eclipse heldur en þessu frati.

3. THE BOUNTY HUNTER

Jeminn hvað þessi mynd var slæm! Leiðinlegur, fyrirsjáanlegur söguþráður með lélegum bröndurum og óþolandi persónum. Leikstjórnin er grátlega misheppnuð og það sést t.d. mest á því hvað hasarsenurnar eru illa teknar upp, illa klipptar og með kolvitlausri tónlist undir sem útrýmir eitthvað sem kallast orka eða adrenalín. Eins og það sé ekki nógu vont þá er heilt sub-plott sem fuðrar bara upp og fær ekkert „closure“ án nokkurra útskýringa. Fínar fréttir svosem þegar myndin er að kála manni úr leiðindum, en það sýnir bara enn betur hvar metnaðurinn var staddur allan tímann. Þetta hreinlega öskrar allt saman: TÍMASÓUN!

2. SKYLINE

Mér sárnar bara við það að skrifa þennan titil. Læt það duga…

1. THE LAST AIRBENDER

Eina myndin á öllu árinu sem var svo slæm og illa uppsett að kostir svosem útlit, búningar og sviðsmyndir skiptu mér ENGU máli. Shyamalan ætlaði að eiga massa comeback með þessari mynd og þ.a.l. skipta um stíl sem leikstjóri, en hvað kemur svo í ljós? Hann er ennþá vanhæfari þegar kemur að stórmyndum heldur en spennuþrillerum þar sem vindurinn spilar hlutverk vonda kallsins. Ég man þá tíð þegar hann var talinn góður kvikmyndagerðarmaður sem gerði örfáar slakar myndir. Núna er það akkúrat öfugt. Eftir svona viðbjóð er kominn tími á hlé hjá kallinum.

Hér koma svo þristarnir!
(smá bónus)

.:MESTU VONBRIGÐI ÁRSINS:.

CLASH OF THE TITANS

Hvað lofaði svona góðu?

Flottur trailer, góðir leikarar, töff saga með miklum möguleikum. Leit út fyrir að vera epísk afþreying!

Hvað fór úrskeiðis?

Framleiðendurnir voru fífl. Gjörsamlega skemmdu myndina sem Louis Leterrier hafði í huga (getið lesið ykkur til um það hér). Myndin var klippt svo mikið í spað að fátt stóð eftir annað en hasarsenur sem létu myndina almennt líta meira út eins og tölvuleik í staðinn fyrir þá „badass“ skemmtun sem hún átti að vera. Ef persónurnar hafa dýpt á við Legókalla hef ég engan áhuga á látunum, alveg sama hversu vel gerður hasarinn er.

ALICE IN WONDERLAND

Hvað lofaði svona góðu?

Upprunalega sagan hrópar svo mikið Tim Burton að ég spurði mig sífellt af hverju hann var ekki LÖNGU búinn að kvikmynda hana ?!

Hvað fór úrskeiðis?

Burton henti upprunalega efninu út um gluggann og gerði í staðinn einhverja grautþunna framhaldssögu sem gerðist mörgum árum eftir að áhugaverða sagan átti sér stað. Það feilaði hér um bil allt saman nema útlitið og andrúmsloftið. Mun seint fyrirgefa Depp (og Burton) fyrir þetta atriði:

A NIGHTMARE ON ELM STREET

Hvað lofaði svona góðu?

Sú gamla er dálítið úrelt og þar að auki var ómögulegt að lítast illa á Jackie Earle Haley í aðalhlutverkinu. Ég hafði mikla trú á honum.

Hvað fór úrskeiðis?

Hrollvekja án hrollsins er lítið annað en svefnlyf. Allt saug í þessari mynd nema Haley. Svekk! A.m.k. fékk ég þá ósk uppfyllta.

.:ÓVÆNTUSTU MYNDIR ÁRSINS:.

THE A-TEAM

Hvers vegna?

Bjóst ekki við neinu, fékk í staðinn hasarbombu sem er hraðskreið, yfirdrifin, bjánaleg og með húmor fyrir því allan tímann. Skil ekki hvað gagnrýnendur voru að grenja. Þetta er Sumarmynd með stóru S-i.

EASY A

Hvers vegna?

Burtséð frá sjarma og útliti hennar Emmu Stone átti ég von á auðgleymdri gelgjumynd sem reyndist síðan vera snjöll, hnyttin, skemmtileg og meinfyndin unglingamynd sem höfðar jafnvel enn betur til kvikmyndanörda heldur en markhóp síns. Hún er frábær ef þú ert t.d. John Hughes-aðdáandi.

LET ME IN

Hvers vegna?

Ein af hverjum hundrað amerískum endurgerðum er betri en upprunalega myndin. Ég bjóst alls ekki við því að þessi færi í minnihlutann. Hún er alls ekki slæmt afrit af sænsku myndinni. Hún er ekki einu sinni afrit af henni. Þetta er bara öðruvísi útgáfa af sömu sögu (dýrka 80s múdið á henni). Mér fannst þessi dekkri, áhrifaríkari og flæða mun betur. Held að ég sé kominn sjálfur í minnihluta þar samt. Ekki samt segja mér að þið séuð ekki sátt með það að þessi skuli hafa sleppt þessu kexruglaða kattaratriði sem var í frummyndinni…

MYNDIR SEM ALLIR FÍLUÐU NEMA ÉG:

*GEEEEEEEEEISP*

(Laaangur listi af ástæðum – sjá umfjöllun)

(Sjá botnlistann)

Seinast koma svo ásarnir
(Bónus BÓNUSINN)

„HÆTTIÐ-AÐ-VÆLA“ MYND ársins

TRON LEGACY

Það á enginn að fara á Tron-mynd með því hugarfari að fylgjast með lagskiptum söguþræði eða botnlausum frumleika! Myndin vissi nákvæmlega hvað hún vildi vera og var ekkert nema það. Verst samt hvað Digital Jeff var ósannfærandi þó, og lítur e.t.v. verr út í 2D útgáfunni. Tónlistin og útlitið er það sem við komum til að sjá, og stóð það fyrir sínu? FÖKK já!

„ÖLLUM-VAR-SKÍTSAMA“ MYNDIN:

KNIGHT AND DAY

Hefði þetta verið árið 2004 hefðum við kannski gert einhverjar væntingar til hasargamanmyndar (handa stelpum??) með Tom Cruise og Cameron Diaz í aðalhlutverkum en því miður reyndist þessi vera álíka mikil event-mynd og Sisterhood of the Traveling Pants 2 var fyrir tveimur árum. Og hún kom ekki einu sinni í bíó!

ALLRA ALLRA TILGANGSLAUSASTA MYND ÁRSINS

DEATH AT A FUNERAL (nýja)

Leikstjóri meistaraverksins The Wicker Man frá 2006 gerði hér ekkert nema að horfa á frummyndina (sem Frank Oz leikstýrði), gerði síðan CTRL+C og skipti um leikara svo fleiri bandarískir blökkumenn myndu mokast inn á þessa mynd og veltast úr hlátri yfir frumleikanum. Þetta er næstum því jafn bein kopía og þegar Michael Heneke gerði Funny Games á ensku nema það slapp því hann var að fikta í sinni eigin mynd. Allt öðruvísi þegar einhver annar á hana.

FRAMMISTAÐA ÁRSINS:

NATALIE PORTMAN

Hugsið Daniel Day-Lewis í There Will Be Blood nema setjið hann í balletkjól og breytið kannski um kyn í leiðinni. Portman er ÞAÐ góð!!

Athugasemdir sendast á tommi@kvikmyndir.is.

Ég þakka fyrir mig í bili.
Kv.
T.V.

PS. Hverjar eru bestu/verstu myndir ársins að þínu mati?