Hrútar, mynd Gríms Hákonarsonar, hefur verið tilnefnd sem besta kvikmyndin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum (European Film Awards) í ár. Sex myndir eru tilnefndar til verðlaunanna.
Evrópska kvikmyndaakademían (European Film Academy) stendur fyrir verðlaununum og fer hátíðin fram í Berlín í Þýskalandi 12. desember næstkomandi.
Hrútar hefur síðastliðna mánuði notið mikillar velgengni á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum heimsins. Vegferðin hófst þegar myndin var frumsýnd á Cannes-hátíðinni í maí og vann þar til Un Certain Regard-verðlaunanna.
Hrútar hefur nú keppt til verðlauna á níu alþjóðlegum kvikmyndahátíðum, unnið aðalverðlaunin á sjö þeirra og alls unnið til 13 verðlauna. Hún hefur einnig verið sýnd á fjölda annarra hátíða utan keppni, þeirra á meðal Karlovy Vary-kvikmyndahátíðinni í Tékklandi, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og Telluride-kvikmyndahátíðinni í Bandaríkjunum, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.
Hrútar er sem kunnugt er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2016 í flokki kvikmynda á erlendu tungumáli. Um miðjan desember verður tilkynnt um forvalið á þeim níu myndum sem eiga möguleika á tilnefningum og þann 14. janúar verður tilkynnt um hvaða fimm myndir hljóta endanlegar Óskarstilnefningar.
Íslenskar kvikmyndir hafa í gegnum tíðina hlotið nokkrar tilnefningar í hinum ýmsu flokkum á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum en aðeins tveir Íslendingar hafa hreppt verðlaun; Hilmar Örn Hilmarsson og Björk.
Árið 1991 hlaut Hilmar Örn verðlaun fyrir bestu tónlist í Börnum náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson og árið 2000 var Björk valin besta leikkonan fyrir aðalhlutverk sitt í íslensku minnihlutaframleiðslunni Dancer in the Dark eftir Lars von Trier. Hlaut Björk einnig áhorfendaverðlaun sem besta leikkona, auk þess sem myndin var valin besta myndin og Lars von Trier hlaut áhorfendaverðlaun sem besti leikstjóri.