Tæknibrellurnar í Dune: Part Two eru töfrandi. Þú finnur fyrir þeim í sálu þinni, þær eru ekki eitthvað til að vera að brjóta heilann um. Þetta eru orð úr fjögurra stjarna dómi Robbie Collin í breska blaðinu The Telegraph en kvikmyndin, sem margir hafa beðið spenntir eftir, var frumsýnd hér á landi og annarsstaðar í gær, föstudaginn 1. mars.
Snemma í myndinni, sem mögulega er sú síðasta, en kannski ekki – notar herdeild Harkonnen hermanna þotubúninga (e. Jet Pack) til að klífa klettastapa í eyðimerkum Arrakis. En í stað þess að búnaðurinn skjóti hermönnunum upp í loftið lætur hann þá feykjast upp klettavegginn líkt og geimfara sem eru að skutla sér á milli staða í lofttæmi geimstöðvar: Hratt, sleipt og hljóðlega færast þeir upp á við.
Í þessari framhaldsmynd af Dune er sagt frá ferðum Paul Atreides ásamt Chani og Fremen á plánetunni Arrakis og hefndum gegn þeim sem lögðu á ráðin um árásina og drápið á Atreides fjölskyldunni. Paul stendur frammi fyrir erfiðu vali á milli draumaprinsessunnar og örlaga ...
Þú kannast strax við hreyfinguna en samhengið er ókunnugt, eins og Collin bendir á, og ósamræmið kallar fram gæsahúð.
Tekst í hverju atriði
Hann segir að leikstjóranum, Denis Villeneuve, takist að gera þetta í nærri því hverju einasta atriði. Brellan sé hressandi á sama tíma og hún sé óþægileg. „Hvenær fengum við síðast 190 milljóna dala stórmynd sem var svona mikilfengleg, svona ógnandi – og þar sem ekki er verið að útskýra hvert og eitt atriði, heldur fær áhorfandinn að ná því sem hann getur og skynja það sem eftir stendur?,” spyr Collin.
Hann svarar spurningunni á þá leið að mögulega, þegar fyrri myndin var frumsýnd, árið 2021, og varð nógu vinsæl til að réttlæta þetta framhald, var samt eins og hún væri aðeins vanmetin.
Byrjar þar sem hin endar
Mynd númer tvö byrjar nákvæmlega þar sem fyrri myndin endaði og áhorfendur eru strax með á nótunum. Harkonnen þjóðin, undir stjórn hins halakörtulega Baron, sem Stellan Skarsgård leikur, ræður nú yfir Kryddverslun Arrakis, á sama tíma og Paul Atreides, sem Timothée Chalamet leikur, beitir skærum, ásamt Chani, sem Zendaya leikur, og Freman ættbálkinum, á námugröft Harkonnen.
Tilraun Pauls til að ná aftur yfirráðum felur meðal annars í sér að nýta aldagamalt trúarlegt samsæri, og það er þessi ferill – undir stjórn móður hans, Bene Gesserit gyðjunnar Lady Jessica, sem Rebecca Ferguson leikur – sem tekur yfir stóran hluta myndarinnar. Það gerir kvikmyndina jafnvel einbeittari og meira fókuseraðari en þá fyrri, en í Dune 1 þurfti að nýta hluta af tímanum í að kynna til sögunnar námugröftinn og þann feril allan, sem og dulmögnun kryddsins sjálfs.
MBL.IS HLAÐVARP – SAMTAL VIÐ GÍSLA Í NEXUS UM DUNE
Austin Butler er að mati gagnrýnandans frábær sem ógnvænlegur sadisti sem vílar ekki fyrir sér að skera einhvern á háls, rétt eins og hann væri að ráðast á flugur. Butler er mest áberandi af nýliðunum í myndinni en Florence Pugh og Léa Seydoux hafa minna að gera.
Það gæti hinsvegar breyst í framhaldsmyndum framtíðar verði þær gerðar eins og gagnrýnandinn bendir á að lokum.