Bráðabirgðatölur fyrir helgaraðsóknina í Bandaríkjunum, frá föstudegi til sunnudags, sýna að vinsælasta myndin þar í landi var gíslatökumynd Bens Affleck, Argo, en myndin er komin á toppinn eftir að hafa verið í sýningum í þrjár vikur.
Bíóaðsókn var annars með minnsta móti í Bandaríkjunum um helgina þar sem fellibylurinn Sandy hefur sett allt úr skorðum á austurströnd landsins, og fólk þar hefur greinilega lagt meiri áherslu á að undirbúa sig undir komu fellibylsins en að fara í bíó.
Það er greinilegt að Argo hefur spurst vel út, en árangur myndarinnar er eftirtektarverður. Myndin þénaði 12,3 milljónir Bandaríkjadala um helgina.
Önnur mynd sem rétt eins og Argo er ekki ný á listanum, búin að vera í sýningum í fimm vikur, Hotel Transylvania, lenti í öðru sæti þessa helgi, og þénaði 9,5 milljónir dala.
Efsta nýja mynd helgarinnar var Cloud Atlas, nýja Tom Hanks og Halle Berry myndin í leikstjórn The Matrix leikstjórasystkinanna, Wachowski systkina, og Run Lola Run leikstjórans Tom Tykwer, lenti í þriðja sæti með 9,4 milljónir dala í tekjur, og olli vonbrigðum, enda er myndin með marga stjörnuleikara innanborðs, og búið að eyða miklu fé í auglýsingar. Myndin gæti þó sótt í sig veðrið eins og toppmyndirnar tvær hafa gert, á næstu vikum. Framleiðslukostnaður Cloud Atlas er sagður hafa verið um 100 milljónir dala.
Paranormal Activity hryllingsmyndin númer 4, lenti í fjórða sæti og Taken 2 í því fimmta.
Hér er listi tíu efstu mynda: