Tvöfaldur sigur Zik Zak í Mons

 Zik Zak kvikmyndir áttu tvær verðlaunamyndir á kvikmyndahátíðinni í
Mons í Belgiu (Le Festival International du Film d’Amour de Mons) um
síðastliðna helgi. Kvikmyndin Skrapp út eftir Sólveigu Anspach hlaut
titilinn “besta evrópska kvikmyndin” og Smáfuglar eftir Rúnar
Rúnarsson var valin “besta alþjóðlega stuttmyndin”.

Hátíðin sem hefst jafnan í kringum Valentínusardaginn er nú haldin í
25. sinn og nýtur sífellt meiri vinsælda, en um 30 þúsund manns
safnast árlega saman í þessum 90 þúsund manna fallega bæ, Mons, til
að njóta hátíðarinnar.

Sólveig Anspach var viðstödd til að taka á móti verðlaununum fyrir
Skrapp út og lét mjög vel af sér enda var henni tekið með eindæmum
vel.

Nefna má að Smáfuglar hefur unnið til svo margra verðlauna frá því
að hún var frumsýnd, í maí 2008, að engin önnur stuttmynd í
heiminum hefur unnið jafn mörg verðlaun frá þeim tíma til dagsins í
dag.