Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Skrapp á kvikmyndina Skrapp út eftir Sólveigu Anspach um helgina.
Eftir helling af auglýsingum og stiklum birtist íslenska myndin. Hún var borin upp af háægða atvinnuleikurum og ýmsum skrautlegum karakterum, flestum úr listageiranum. Í stuttu máli segir frá dópsalanum Önnu sem hefur mikil sambönd í undirheimum Reykjavíkur. Flóran endurspeglar allan þjóðfélagsstigann. Anna er orðin leið á bransanum og stefnir á ferðalag af skerinu. Hún ákveður því að selja farsímann sinn en þar eru númer allra 300 viðskiptavina hennar. Upplýsingar eru dýrmæt eign. Er hún er að ganga frá viðskiptunum endar hún óvænt upp á Snæfellsnesi og lendir í æsilegri leit að farsímanum. Á sama tíma safnast kúnnahópur hennar saman á litlu heimili hennar og er það spaugilegur hópur.
Það má segja að þetta sé vega- og farsímamynd en farsímar eru farnir að verða gríðarlega mikilvægir í söguþræði kvikmynda. Það er húmor í myndinni og ágætis afþreying. Nokkur stílbrot eru í frásögninni og finnst mér athyglisverðast þegar gítar kemur óvænt inn í söguna á Kvíarbryggju. Snilldar atriði og minnir á atriði í myndinni Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór er jeppi hverfur skyndilega í eltingaleik við lögregluna.
Einnig eru nokkrar sögur sem styðja aðalfrásögnina, þeir þræðir eru ekki gerðir upp í lokin. Ég spyr mig, hvort það sé ekki útpælt, á áhorfandinn ekki að klára þær pælingar? Lífskúnsterinn Didda er aðal persóna myndarinnar og ef til vill er handritið skrifað með hana í huga. Hún leikur sjálfa sig og finnst mér ekki ná að slá í gegn.
Tónlistin góð í myndinni, skemmtilegur bassi og stórsveitin Hjálmar með skemmtilegt gleðilag í lok myndar sem hélt áhorfendum í sætum meðan kreditlistinn rann í gegn.
Mikið eru auglýsingar og hlé farið að fara úr böndunum í íslenskum kvikmyndahúsum. Nú fer ég að stunda sýningar hjá Græna ljósinu, þar er maður laus við þennan ófögnuð.
Hafið þið einhvern tímann verið stödd í samkomu hjá eldra fólki (t.d. foreldrum) og "óvart" lent í samræðum við svona gamla, úldna kellingu sem ekki bara lyktar illa, heldur talar eins og hún hafi keðjureykt í 20 ár og neitar að halda kjafti? Því miður hefur það komið fyrir mig, og ég get fullyrt það án þess að hika að aðalpersóna þessarar myndar hafi minnt mig mikið á það móment.
Mér finnst eiginlega hálf fúlt að þessi mynd skuli styðjast við svona gríðarlega leiðinlega persónu. Ég hef svosem ekkert að setja út á frammistöðu Diddu, en Anna, persóna hennar, er svo fáránlega óspennandi, flöt og pirrandi. Þar að auki breytist hún ekkert út alla myndina. Persónuþróun hennar er engin og undir lokin er maður hálfpartinn búinn að fá meira en nóg af henni.
Skrapp Út feilar samt ekki bara á þessari persónu, heldur meira eða minna öllum söguþræðinum. Að segja að myndin sé viðburðarlítil er voða vægt til orða tekið, en það var ekki það sem að böggaði mig. Myndin gengur eiginlega ekki út á neitt og virkar oft eins og endalaus uppfylling. Ónauðsynlegar senur staldra við af og til og hafa eiginlega ekkert að gera þarna (t.d. senan með gítarnum...) nema ýta lengdinni nær 90 mínútum. Síðan eru nokkur sub-plott sem að fylla lítið upp í myndina og stefna í raun ekkert. T.d. plottið með soninn og ameríska pabbann. Til hvers? spyr ég bara... Þetta hvorki bætti upp á persónusköpun né þjónaði atburðarás myndarinnar að einhverju leyti.
Öll myndin er eiginlega samansafn af atriðum þar sem að fólk gerir ekki neitt nema bíða eftir aðalpersónunni, en það fyndna er, að í hvert sinn sem að Didda er á skjánum, þá verður myndin frekar litlaus og tjah... leiðinleg (annað skiptið í þessari umfjöllun sem ég nota þetta orð. Ekki gott). En án þess að vera allt, allt of neikvæður, þá voru tvær senur í myndinni sem að voru faktískt drepfyndnar. Þar má t.d. nefna ákveðið sveppatripp sem að hamraði ofan í mann hvað það getur verið ógnvekjandi. Hin senan segir frá röngum aðstandendum í tiltekinni útför. Alveg brill!
Það sem ég fílaði við Skrapp Út var einmitt þessi pæling á bakvið hana að nánast allt gat gerst í henni. Myndin var svo mikil steypa allan tímann að hún setti sér sjaldan reglur og fyrir vikið var hún nokkuð skemmtileg til áhorfs. Bara verst að skemmtilegu augnablikin voru í þessu lágmarki og beið maður alltaf eftir einhverju fyndnu, en það datt sjaldan inn.
Myndin skilur eiginlega ekkert eftir sig því sagan er svo gríðarlega ómerkileg og tilgangslaus í alla staði. Hefði virkilega verið svo erfitt að móta kannski persónur sem að manni hefði ekki verið svona sama um? Í stað þess að gera hverja einustu persónu að pappafígúru.
Ég ætla ekki að vera einn af þeim sem að gefur íslenskri bíómynd ákveðna einkunn í forgjöf bara fyrir það að vera íslensk. Nei, ég geri sömu kröfur til íslenskra mynda og annarra. Skrapp Út hefur - eins og ég sagði - nokkur brjálæðislega skemmtileg augnablik og mjög steikt yfirbragð almennt, sem ég hafði gaman af. Aftur á móti missir hún sig harkalega í þróunarleysi sínu og í raun bara fyrir það hversu stefnulaus hún er.
Þetta er erfið einkunn en ég læt hana sleppa með miðjumoðseinkunn.
5/10
Þessi mynd fjallar um dópsala sem lendir óvart á ferðalagi um sveitina. Þetta er um senn mynd um hræsin í Reykjavík sem eru látin líta bara nokkuð huggulega út og landsbyggðina og víðáttuna þar.
Myndin gengur alveg upp fyrir utan tvö atriði. Annað þeirra er samansafn af persónum sem tala við myndavélina og lýsa skoðun sinni á stöðunni, sem hefur verið gert svo oft og aldrei vel gert. Í hinu atriðinu kemur aðskotahlutur eiginlega upp úr þurru og fylgir því engin skýring, þetta hef ég aldrei séð áður og hefði myndin ekki verið sú sama án þess. Sem sagt, það hefði mátt sleppa fyrra atriðinu en seinna atriðið er algjör snilld.
Það sem gerði þessa mynd líka skemmtilega var hversu mikið var af alskonar persónum. Það voru einmanna bændur, fasttrúa útlendingur í ástasorg, skrítnir unglingar, milljónamæringar og svona gæti ég lengi haldið áfram. Sumir betur leiknir en aðrir, en öll aðalhlutverkin eru mjög vel gerð. Þar ber hæst að nefna Diddu Jónsdóttur sem fer með aðalhlutverkið.
Ég bjóst við að þurfa að bera þessa mynd meira saman við Stormviðri, en í rauninni hafa þær voða lítið sameiginlegt fyrir utan að vera leikstýrð af Sólveigu Anspach og hafa Diddu Jónsdóttur í aðalhlutverki.
Þessi mynd á sína galla, en þeir eru allir minniháttar. Það vantar eitthvað uppá til að ég gefi henni fullt hús. Hún fær 8 af 10, en þar sem ég er mjög veikur fyrir íslenskum myndum gæti það jafnvel verið aðeins of mikið.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Sólveig Anspach, Jean-Luc Gaget
Vefsíða:
Frumsýnd á Íslandi:
8. ágúst 2008