Síðastliðið sunnudagskvöld var haldið stuttmyndakvöld á vegum Reykjavik International Film Festival í Iðnó undir heitinu Íslenskar stuttmyndir. Til sýninga voru myndirnar Aðskotadýr, Naglinn, Harmsaga og Keisarinn. Stærsta myndin var þó klárlega stuttmynd Rúnar Rúnarssonar, Smáfuglar, en hún hefur farið sigurför um allan heim, einkum vegna þess að Rúnar Rúnarsson var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir stuttmyndina Síðasti bærinn sem kom út árið 2004, og er af mörgum talinn eitt bjartasta leikstjóraefni þjóðarinnar.
Hins vegar voru ljósin kveikt áður en Smáfuglar var sýnd, en hún var síðasta mynd kvöldsins, og engin ástæða gefin fyrir sýningarleysinu þrátt fyrir að hún hafi verið auglýst og almenningur borgað 900 kr. fyrir miðann.
Við hjá Kvikmyndir.is grennsluðumst fyrir og ástæðan fyrir því að Smáfuglar var ekki sýnd þetta kvöld var að búið var að sýna hana áður og aðeins mátti sýna hana einu sinni. Í öllum hamaganginum hafði gleymst að koma því til skila.
Mitt álit
Þrátt fyrir að hafa ekki séð Smáfugla þetta kvöld, þá var þessi ferð í Iðnó klárlega ferð til fjár, enda voru allar stuttmyndirnar sem sýndar voru þetta kvöld góðar. Það er hins vegar mín von að einhver sjái sér fært að sýna Smafugla á innlendum vettvangi í náinni framtíð, þar sem bæði undirritaður og (að því sem mér sýndist) flestir, ef ekki allir, í salnum voru hálfsvekktir í lok kvölds.

