Vélmennin tróna enn á toppnum – Horrible Bosses og Zookeeper í 2. og 3. sæti

Vélmennatryllirinn Transformers: Dark of the Moon hélt sæti sínum á toppi aðsóknarlistans í Bandaríkjunum nú um helgina, en tekjur af myndinni námu 47 milljónum Bandaríkjadala, og samanlagt 140 milljónum um heim allan. Það þýðir að myndin er komin upp í 645 milljónir dollara á alheimsvísu frá frumsýningu.
Myndin burstaði helstu samkeppnismyndir um helgina í keppninni um hylli bíógesta, en gamanmyndirnar Horrible Bosses, sem þénaði 28 milljónir dala, og Zookeeper, sem þénaði 21 milljón dala, lentu í öðru og þriðja sæti. Báðar þessar síðasttöldu myndir voru frumsýndar um helgina í Bandaríkjunum og Kanada.
Transformers: Dark of the Moon hefur nú þénað 261 milljón Bandaríkjadali í Bandaríkjunum og Kanada og er orðin aðsóknarmesta mynd þessa árs.

Gamanmyndin Horrible Bosses, sem fjallar um þrjá karlkyns vini sem gera áætlun um að myrða illgjarna yfirmenn sína stóð sig betur í miðasölunni en búist var við, en gamanmyndir fyrir fullorðna eins og hún og Hangover 2 og Bad Teacher hafa gengið vel ofaní bíógesti þetta sumarið. Í Horrible Bosses leika aðalhlutverk þeir Jason Bateman, Charlie Day og Jason Sudeikis ásamt Jennifer Aniston sem leikur einn af yfirmönnunum. Hinir yfirmennirnir eru Kevin Spacey og Colin Farrell.
Zookeeper er fjölskyldu – gamanmynd, með Kevin James í aðalhlutverki. Myndin fékk ágæta aðsókn, bæði á heimamarkaði og utan Bandaríkjanna, en 7,5 milljónir dala komu í kassann utan Bandaríkjanna, aðallega frá Þýskalandi og Mexíkó.
Cars 2, framhaldsteiknimyndin fra´Disney Pixar animation studio, náði 4. sætinu með 15 milljónir dala í tekjur og mynd Cameron Diaz, Bad Teacher lenti í fimmta sæti með 9 milljónir dala í tekjur.

Smellið hér til að horfa á trailerinn fyrir Horrible bosses og hér ef þið viljið kíkja á sýnishorn úr Zookeper.