Verstu myndirnar á árinu!

Það er komið að þeim tíma ársins þar sem botninn er skrapaður og ég get sko lofað ykkur því að 2011 sá sinn skerf af kalkúnum í bíó. Ef út í það er farið er þetta ábyggilega slakasta bíóárið sem ég man eftir síðan… 2007 myndi ég skjóta á (það ár fékk mynd eins og Juno Óskarstilnefningu fyrir bestu mynd – segir það ekki helling?). Ég á enn eftir að sjá eitthvað af tilvonandi gæðamyndum ársins (Hugo, Shame, The Artist o.fl.), þess vegna læt ég það vera að smala saman bestu myndum ársins í einn lista. Í bili allavega.

Hvað hreinræktaðar afþreyingarmyndir varða var þetta ár svosem ágætt en langt leið á milli ekta gæðamynda og því miður voru alltof margar sem skoruðu langt undir miðjumoðseinkunn hjá undirrituðum. Þegar slíkt gerist getur það ekki þýtt annað en að heilaskaði sé í nánd.

Hérna eru rotnustu eplin sem komu í bíó að mínu mati (ásamt smá bónuslista), eða með öðrum orðum…

.:10 VERSTU MYNDIR ÁRSINS 2011:.

10. JOHNNY ENGLISH REBORN

Það er með ólíkindum hvað Rowan Atkinson getur verið fyndinn í Blackadder en síðan látið eins og hann sé bókstaflega þroskaheftur í hlutverki Mr. Bean. Atkinsons reynir að þóknast hinum einföldustu áhorfendum með Johnny English-myndunum; semsagt fólki sem hlær bara vegna þess að myndin ætlast til að það hlæi. En eins og þessi sóðalega þreyttu Bond spoof-hugmyndir séu ekki orðin nógu gamlar, þá er því bragðbætt með „slapstick“ húmor af ódýrustu gerðinni. Gleymum því svo ekki að hver einasti brandari í Johnny English-myndunum snýst um nákvæmlega eitt: Titilkarakterinn er fáviti!

Besta leiðin til að kanna hvort þetta sé húmor fyrir þig er að gefa fyrstu 10 mínútunum séns. Þær segja þér allt, og ef þér finnst þessi mynd vera drepfyndin þá er ljóst að við séum ekki með svipaðan húmor og þar af leiðandi geturðu gleymt því að taka mark á mér það sem eftir er af þessum botnlista. Hann er líka löðrandi í gamanmyndum aðallega.

9. BEASTLY

Beastly er nákvæmlega það sem þú færð út ef þú tekur hina klassísku sögu um Fríðu og dýrið og kvikmyndar hana fyrir unglinga, eða Twilight-hópana nánar til tekið. Myndin vill vel og reynir að pína ofan í okkur hundgamlan móral og sýna að hún hafi hjarta, en þjáist allsvakalega fyrir slæm samtöl, ómarkvissa leikstjórn og slakar frammistöður frá ungu en fallegu fólki. Unglingamyndaglansinn með meðfylgjandi FM-tónlist kryddar beinlínis ekki upp á áhorfið heldur.

8. ZOOKEEPER

Ég hef sjaldan gengið út af slakri mynd jafn ánægður. Zookeeper er, jú, heimskuleg og fljótgleymd klisjumygla sem er óþarflega löng og oftast ófyndin en hún er sem betur fer miklu þolanlegri heldur en Paul Blart: Mall Cop, og ekki nærri því jafn einhæf í húmor. Þetta er samt sem áður mynd sem stýrist af svo aulalegu plotti að maður þorir varla að horfa á sum atriðin. Kevin James er viðkunnanlegur bangsi, en hann þarf í alvörunni að hætta að blanda geði við þetta Happy Madison-teymi. Adam Sandler og hans félagar eru bara að gera grín að honum án þess að hann átti sig á því. Greyið.

7. NEW YEAR’S EVE

Ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig mynd eins og þessi verður til. Eru hausarnir hjá Warner Bros. að senda út eitthvað fréttabréf til allra helstu Hollywood-stjarnanna – þar sem þeim er lofað háum launum fyrir litla vinnu – og sjá svo hverjir svara tilbaka? New Year’s Eve er sársaukafull sykuræla og ég er mjög feginn að hún skuli floppa í heimalandi sínu. Meira að segja þær konur sem sjá flestar rómantískar gamanmyndir þarna úti létu ekki bjóða sér upp á „cash-grab“ metnaðarleysi af þessari gerð.

6. JUST GO WITH IT

Ég hef reynt svo lengi að sýna Adam Sandler almennilega þolinmæði. Ég elskaði manninn í Punch-Drunk Love og var í alvörunni hrifinn af frammistöðu hans í Spanglish og Funny People. Ég bíð alltaf eftir því að sjá hann gera meira svoleiðis, en alltaf missir hann jafnvægið og slæst í för með þessum Dennis Dugan, sem er án efa einn versti leikstjórinn á lífi í dag og algjör plága þegar kemur að gamanmyndum. Sandler getur sjálfum sér um kennt, því á þessu ári tókst honum að gera tvær myndir með Dugan, sem báðar fengu vonda dóma og sérstakt hatur frá mér.

Just Go with It er ein af þessum myndum sem sýnir fullt af leikurum fara saman í frí til sólarlanda, og þeir ákváðu víst að gera bíómynd á meðan þeir voru þarna. Það er allavega kenningin. Afraksturinn bendir ekki til neins annars. Í fyrra (Grown Ups) var það bústaðarferð, og ekki kom það mikið betur út. Sandler sýnir engan metnað. Hann veit að markhópur sinn (sem eru líklegast 10-12 ára guttar sem éta vaxliti) borgar sig inn á allt sem hann framleiðir. Til hvers þá að reyna og hætta á því að þurfa að vinna í fríinu?

5. SPY KIDS: ALL THE TIME IN THE WORLD

Krakkar, ef þið viljið gefa foreldrum ykkar svakalega öflugan hausverk og tímabundið gera þeim lífið leitt, látið þá horfa með ykkur á Spy Kids 4. Í augum barna er hún ærslafull og litrík, en þeir sem eru komnir á gelgjuna og yfir sjá það strax að þetta er hörmulega skrifuð, sjálfumglöð og þreytandi brelluveisla sem elskar prumpuhúmor og talandi hunda.

Robert minn, nú HÆTTIR þú að gera barnamyndir!

4. HRAFNAR, SÓLEYJAR OG MYRRA

Þessi er, án nokkurs vafa, ein sú fyndnasta sem ég sá þetta árið, en auðvitað óviljandi. Þetta er það sem gerist þegar óreynt fólk fær að gera bíómynd; sagan flæðir asnalega, leikurinn er hræðilegur, tónninn alltof ýktur og tæknivinnslan myndi ekki teljast ásættanleg fyrir kvikmyndaskólanema. Það er eins og sjónskertur maður hafi tekið myndina upp og grunnskólakrakki séð um klippinguna. Í alvöru talað samt, sjáið þessa mynd! Hún er liggur við merkileg fyrir okkar land og frábær æfing í hvernig skal ekki gera hlutina.

3. KURTEIST FÓLK

(Nei sko, önnur íslensk mynd!)
Stefnulaus, illa samsett og alveg hreint viðbjóðslega leiðinleg mynd sem veit ekkert hvort hún eigi að vera gamanmynd eða drama. Hún er ekkert fyndin og svo þegar hún tekur sig alvarlega geispar maður bara. Leikararnir gera sitt besta til að bjarga handriti sem virkar þó ekkert innihaldsríkara en það sem hægt er að krota á bréfþurrku. Sem betur fer tókst leikstjóranum að ná sér vel upp aftur með Borgríki.

2. ABDUCTION

Sumir einfaldlega „púlla“ bara ekki hasarhetjuna, og Taylor Lautner er einn af þeim. Reyndar er voða lítið sem hann getur nú gert yfir höfuð, og leikhæfileikar hans í þessari mynd sína að hann hefur áhugann en ekki réttu persónutöfrana eða „kúlið.“ Myndin sjálf er ekkert annað en klisjuklessa sem tekur allt það besta sem við höfum séð úr Bourne-myndunum og gerir það ofsalega óspennandi.

1. JACK & JILL

Grínmynd getur varla lagst lengra niður heldur en þetta. Adam Sandler er nánast búinn að brjóta blað í kvikmyndasögunni og framvegis verður litið á feril hans sem „fyrir Jack & Jill,“ og „eftir Jack & Jill.“ Þetta er húmorslaus, barnaleg og veruleikalaus skítahrúga sem reynir svo grimmt að fá þig til þess að hlæja en ætti ekki að virka á þá sem eru mikið eldri en tíu ára. Góðu dagar Sandlers breytast hratt í fjarlæga minningu upp úr þessu.

.:5 STÆRSTU VONBRIGÐIN:.
(Þessar hefðu átt að vera MUN betri!)

5. GREEN LANTERN

Gott efni, slæm nýting. Ryan Reynolds reyndi sitt besta en handritið var alltof bragðdauft, fyrirsjáanlegt og bara hreinlega leiðinlegt til að myndin gæti gengið upp sem fínasta afþreying. Green Lantern-heimurinn er vaðandi í skemmtilegum hugmyndum en samt tókst myndinni aldrei að grípa mig. Ég veit ekki betur en að það sé merki um eðaláhugaleysi að hálfu aðstandenda. Mín vegna má alveg bíða með þetta og ýta svo á „reboot“ hnappinn, fyrst hann er þegar við hendi hjá öllum DC (og Marvel) framleiðendum.

4. RED STATE

Ég hafði heyrt undarlega góða hluti um þessa mynd, en það var reyndar löngu áður en mjög margir höfðu séð hana. Það fer svosem ekki á milli mála að Red State sé djarfasta tilraun Kevins Smith til þessa. Því miður er þetta líka mest frústrerandi myndin sem hann hefur nokkurn tímann gert. Hún er ekki jafn leiðinleg og Cop Out, en hún gerði mig svo reiðan eftirá að ég var í smástund farinn að halda að Smith væri að djóka í okkur öllum.

Öll bévítans sagan einhver mesta óskipulagða óreiða sem ég hef séð síðustu misseri. Myndin hefur enga hugmynd um hvar fókusinn hennar liggur, hvaða persónur skipta mestu máli eða hvaða skilaboðum hún vill koma á framfæri í lokin. Smith virðist heldur ekki hafa minnstu hugmynd um hvernig mynd hann hefur reynt að gera. Hún auglýsir sig sem hrollvekja en gæti varla verið lengra frá þeim geira. Það eru kannski í mesta lagi tvær ákafar og taugatrekkjandi senur sem ættu kannski í indí-hrollvekju en annars er myndin að hendast á milli þess að vera svört gamanmynd, ádeila, steikt hasarmynd og lögguþriller. Ekkert af þessu gengur upp og þegar maður sér að handritið er sífellt að blekkja mann með því að kynna til leiks glænýjar persónur missir maður tökin á því að fylgja atburðarásinni og á endanum gefst maður upp. (Hver elskar ekki gott „rant?“)

Michael Parks var samt góður. Hann er alltaf góður.

3. SUCKER PUNCH

Eftir þennan kexruglaða trailer vonuðust allir (sem höfðu ekki neikvætt álit á Zack Snyder þ.e.a.s.) til þess að þetta gæti að minnsta kosti orðið að skemmtilegu og geysilega yfirdrifnu bulli. Reyndar var hún ofsalega yfirdrifin en sagan var bullandi tjara og virtist enginn nema Snyder skilja hana út í gegn. Öllum var svosem skítsama um bæði söguna og þessa mynd. Hún var ekkert annað en æfing í brellum og notaði hún einungis leifar af sögu sem stökkpall fyrir fantasíusenur sem leikstjórinn gat snert sig yfir. Núna hefur maður aðeins meiri áhyggjur af næstu Superman-mynd, Man of Steel.

2. PIRATES OF THE CARIBBEAN: ON STRANGER TIDES

Tilgangslausasti fjarki sem Hollywood hefur skitið út úr sér síðan Crystal Skull kom út. Hinar þrjár voru allar býsna fullnægjandi og hugmyndaríkar og þegar ég heyrði að framleiðendur vildu taka seríuna í allt aðra átt var ég meira forvitinn heldur en neikvæður. Miðað við handritsgerðina var Pirates 4 reyndar dauðadæmd frá upphafi en það sem gerði myndina að vonbrigðum var einfaldlega smitandi letin á bakvið gerð hennar.

Enginn reyndi nokkurn skapaðan hlut á sig; Johnny Depp (sem fékk SPIKfeitan launaseðil fyrir þátttöku sína – upphæðin sló eitthvað met, skilst mér) gerði ekkert af viti annað en að endurtaka föstu rútínuna. Ian McShane – maðurinn með einhverja svölustu illmennarödd í heimi – kom mér svakalega á óvart og tókst að gera illmennið Blackbeard, óhugnanlegasta sjóræningja heims, að hundleiðinlegum karakter og það sama á í rauninni við um alla. Enginn á skjánum reyndi neitt á sig, og enginn á bakvið tökuvélarnar heldur, ekki einu sinni leikstjórinn, sem venjulega er þekktur fyrir glansandi og orkuríkar myndir sem snúast mikið í kringum lúkkið og leikaranna. Ímyndið ykkur hversu mikinn pening hann hefur fengið fyrir að vera svona eirðarlaus.

Söguþráðurinn var þurr og óspennandi (anti climax! halló??) og hver einasta hasarsena komst ekki með tærnar þar sem „aksjónið“ í fyrri myndunum hafði hælanna. Eigum við svo að ræða þetta grútleiðinlega plott með hafmeyjunni og trúboðanum? Skyndilega var maður farinn að sakna Orlando Bloom og Keiru Knightley aftur. Svoleiðis á bara ekki að gerast!!

1. THE HANGOVER: PART II

Venjulega tekur maður til orða og ýkir aðeins þegar maður segir að sumar framhaldsmyndir séu „meira af því sama,“ en miðað við áhugann og hugmyndaflugið mætti halda að The Hangover: Part II hefði farið beinustu leið á vídeómarkaðinn. Það er næstum því sjokkerandi hvað hún styðst við margar endurtekningar, enda handritið heimskulega líkt fyrri myndinni. Ég myndi kalla þetta óbeina endurgerð í staðinn fyrir framhaldsmynd. Strúktúrinn er nákvæmlega sá sami, brandararnir svipaðir, atburðarásin beint afrit þar sem aðeins staðsetningunni var breytt með viðbættum typpabröndurum. Ég fór reyndar ekki á þessa mynd með háar væntingar en það er nú varla annað en sjálfsagt mál að búast við einhverju hugmyndaríkara heldur en það sem aðstandendur gáfu okkur.

Það voru yfir 40 þúsund íslendingar sem borguðu sig inn á þessa mynd í bíó, á meðan rétt svo 10 þúsund manns fóru t.d. á X-Men: First Class. Hugsið aðeins um það í smástund.

Allavega, þar hafið þið það. Nú vil ég heyra hvaða myndir fóru í ykkar fínustu á árinu sem nú er að klárast. Mér þætti heldur ekki leiðinlegt að sjá einhvern ykkar verja þessar umræddu Sandler-myndir þar sem ég hef ekki minnstu hugmynd um hvernig slíkar röksemdir myndu fara fram.
Komið svo með ykkar reiðustu sögur! Það eru nú jól.