Wes Anderson opnar Berlinale

Teiknimyndin Isle of Dogs eftir leikstjórann Wes Anderson verður opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar í Berlín, eða Berlinale eins og hún er jafnan kölluð. Myndin notast við svokallaða „stopmotion“ tækni sem er gjarnan notuð í hreyfimyndum sem byggja á brúðum eða fígúrum.

Aðstandendur hátíðarinnar sögðu í dag að myndin yrði heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni sem fer fram þann 15. febrúar á næsta ári. Hátíðin er líkt og hátíðirnar í Cannes og Feneyjum, í flokki A-hátíða, sem taka aðeins nýjar myndir sem ekki hafa verið sýndar á öðrum hátíðum.

Isle of Dogs segir söguna af Atari Kobayashi, 12 ára gömlum dreng, sem flýgur yfir til eyjunnar Trash Island í leit að hundinum sínum. Meðal leikara í myndinni eru Bill Murray, Bryan Cranston, Tilda Swinton, Scarlett Johansson og Edward Norton.

Wes Anderson hefur áður leikstýrt myndum á borð við Moonrise Kingdom, The Fantastic Mr. Fox og The Grand Budapest Hotel. Sú síðastnefnda vann til verðlauna á áðurnefndri hátíð árið 2014.

Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni.