Kvikmyndaleikarinn og framleiðandinn Brad Pitt var spurður að því á kvikmyndahátíðinni í Toronto í dag, þegar hann var að kynna nýjustu mynd sína, þrælamyndina 12 Years a Slave, sem Steve McQueen leikstýrir, hvort að von væri á framhaldi á uppvakningatryllinum World War Z, sem sló í gegn fyrr í sumar.
„Við erum pottþétt að tala um það, já,“ sagði hann við Variety kvikmyndaritið.
World War Z er ein tekjuhæsta mynd ársins í heiminum og vinsælasta mynd Pitt frá upphafi. Á tímabili voru menn hræddir um að hún myndi floppa, enda var hún dýr í framleiðslu, en annað kom á daginn, og 533 milljónir Bandaríkjadala komu í kassann af sýningu hennar um allan heim.
„Við erum með svo margar hugmyndir á borðinu frá þeim tíma sem við vorum að vinna í handritinu og pæla í heimi uppvakninga,“ sagði Pitt í sama samtali.
„Við verðum að ná því að gera gott handrit fyrst til að ákveða næsta skref.“
World War Z er byggð á skáldsögu Max Brooks frá árinu 2006. Hún kostaði 200 milljónir dala í framleiðslu, enda þurfti að endurskrifa hana alla upp á nýtt í framleiðsluferlinu, og taka atriði upp á nýtt. Myndin sló síðan í gegn, og margir þökkuðu það mikilli og ágengri markaðsherferð og jákvæðum viðtökum gagnrýnenda.
Paramount er sagt ætla að stóla á Pitt, en fyrirtæki hans Plan B framleiddi fyrri myndina, varðandi framhaldsmynd, en World War Z var í upphafi hugsuð sem þríleikur.
Næst er hægt að sjá Pitt í 12 Years a Slave, en hann bæði leikur í myndinni og framleiðir hana. Myndin verður sýnd í almennum sýningum í Bandaríkjunum frá og með 18. október nk.