Draugamyndin sem allir eru að tala um í Bandaríkjunum, Paranormal Activity, hefur verið að gera ótrúlegustu hluti í miðasölunni úti. Hún hefur hægt og rólega verið að príla sig upp í toppsætið, og nú á fimmtu vikunni sinni náði hún loks að vera nr. 1 og þénaði rétt yfir $20 milljónir og er samtals komin með $62,5 milljónir. Þeir sem vita eitthvað um þessa mynd eru eflaust meðvitaðir um það að hún kostaði lítið sem ekkert í framleiðslu (15,000 dollarar!) og hefur þar af leiðandi gert aðstandendur virkilega glaða, augljóslega.
Paranormal Activity náði m.a.s. að skáka SAW VI í aðsókn yfir helgina, en eina skiptið þar sem Saw-mynd hefur ekki náð toppsætinu var í fyrra þegar fimmta myndin opnaði á móti High School Musical 3. Til gamans má geta að þessi sjötta Saw-mynd hefur verið að fá ágæta dóma miðað við síðustu myndir, sem hefur komið nokkuð mörgum á óvart. Einn gagnrýnandinn á JoBlo.com gaf henni 7,5/10 og einn gagnrýnandinn á SPILL.com fullyrti að þetta sé langbesta myndin í röðinni, og hann fílaði aðeins eina aðra í seríunni.
Annars hefur aðeins nýlega verið ákveðið að sýna Paranormal Activity í bíó á Íslandi. Hún verður frumsýnd þann 6. nóvember í Laugarásbíói og Smárabíói. Dagsetningunni hefur nýlega verið breytt, en upphaflega átti að frumsýna hana þann 27. nóv.
Spurning hvort hún nái að byggja upp svipað „hæp“ hérna.

