Þó svo að flestir hafi séð The Simpsons Movie á árinu sem er nú rétt liðið, árinu 2007, þá var það Astrópía sem varð tekjuhæsta mynd ársins. Íslendingar eyddu rétt yfir 1,1 milljarði í bíómiðana sína, en 1.477.278 bíómiðar voru seldir. 57.067 manns sáu Simpsons myndina en 46.313 manns sáu Astrópíu, en vegna þess að það er dýrara á íslenskar myndir þá enda Astrópía tekjuhæst með 45,6 milljónir króna í vasanum.
Smáís segir að miðasölutekjur hafi aukist um 2% frá árinu 2006 og íslenskar myndir séu þar með 9% hlutdeild, sem er met. 3 íslenskar myndir báru af á árinu, en þær voru Astrópía, Mýrin og Köld slóð. Bandarískar myndir voru síðan tekjuhæstar með 82% hlutdeild á markaðnum.

