Verðlaunamynd Roy Andersson verður sýnd á RIFF

Kvikmynd sænska leikstjórans Roy Andersson, En duva satt på en gren och funderade på tillvaron (A Pigeon Sat on a Branch Reflecting on Existence) verður sýnd á RIFF í ár.

Myndin hlaut Gyllta ljónið á 71. kvikmyndahátíðinni í Feneyjum fyrir stuttu og samanstendur af 39 stuttum atriðum sem sum eru bráðfyndin og önnur angurvær. Andersson er oft líkt við einhverskonar blöndu af  leikstjórunum Ingmar Bergman og Jacques Tati.

49499-395e30a9a329391028055999a25726da3e9c83b6

Andersson, sem er fæddur í Gautaborg árið 1943 hefur einungis leikstýrt fimm kvikmyndum í fullri lengd á ferli sínum. Hann er best þekktur fyrir myndir sínar A Swedish Love Story (1970) og Songs from the Second Floor (2000) og stíll hans einkennist af kímni, absúrdisma og löngum tökum en í verkum hans hæðist hann að sænskri menningu með grótesku Fellinis. Andersson hefur einnig leikstýrt yfir 400 auglýsingum og tveimur stuttmyndum.

Það ætti að vera mikið tilhlökkunarefni fyrir kvikmyndaáhugafólk að sjá þessa nýju verðlaunamynd Anderssons sem kemur til RIFF beint af kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

Myndin verður sýnd sem hluti af RIFF hátíðinni í Háskólabíói 29.september kl. 20.45, 3.október kl. 18 og 5.október kl. 20.