Topplisti: 10 gæðahrollvekjur sem gerast í sveitum, sumarbúðum og einangruðum skógum – fullkomnar til að kalla fram sumarótta áður en nýja I Know What You Did Last Summer kemur í bíó
Sumarið ætti að vera tími sólskins, útilegu og afslöppunar, en í kvikmyndum er sumarsveitin oft vettvangur skelfingar. Þar er hjálpin oft langt undan, símasambandið takmarkað og morðinginn alltaf handan við hornið.
Nýja I Know What You Did Last Summer er á leið í kvikmyndahús, og því er kjörið að rifja upp hryllingsmyndir sem sameina ungmennamenningu, náttúru, einangrun og ógn. Myndir sem fanga anda klassískra „camp slashers“, en gera það með stíl og faglegri kvikmyndagerð
Hér eru tíu vel valdar kvikmyndir sem eru bæði óhugnalegar og áhrifaríkar, hvort sem þær eru blóðugar, vekja upp óhug eða fá hárin til að rísa.
10. The Cabin in the Woods (2012)
Leikstjórn: Drew Goddard
Myndin sem tekur allar reglur undirflokksins „camp“ hryllings og sprengir þær hreinlega í loft upp. Ungmenni halda í sumarbústað þar sem þau virðast lenda í dæmigerðri slasher atburðarás, en sagan þróast fljótlega í óvænta og ruglingslega metatúlkun. Þá býr eitthvað stærra og óhugnanlegra að baki, með dularfullum fórnarathöfnum og öflum sem breyta reglunum og snúa öllu á hvolf.
The Cabin in the Woods er ekki fyrir alla, en hún er skemmtilega rugluð, óvænt, óttalaus og frábær byrjun á topplista yfir áhrifamiklar „camp horror“ kvikmyndir.
9. Wrong Turn (2003)
Leikstjórn: Rob Schmidt
Ein áhrifamesta hryllingsmynd síðustu áratuga í „backwoods horror“ undirflokknum. Vinir sem villast inn í afskekkta skóga Vestur-Virginíu lenda í klóm afmyndaðrar og erfðagallaðrar fjölskyldu sem hefur lifað afskekkt og utan siðmenningar í margar kynslóðir.
Wrong Turn keyrir af stað með hráum hryllingi og er þétt, beinskeytt og miskunnarlaus hryllingsmynd sem heldur áhorfandanum föngnum frá fyrstu mínútu.
8. Sheitan (2006)
Leikstjórn: Kim Chapiron
Frönsk hrollvekja sem rennur á mörkum „camp horror“ og sálfræðitryllings, óþægilega vandræðaleg á köflum, með óútreiknanlega og ógnvekjandi frammistöðu Vincent Cassel. Hópur ungra borgarbúa leitar að skemmtun og flótta í sveitinni yfir jólin, en endar í sérkennilegu húsi með enn sérkennilegri húsvörð, leikinn af Cassel sjálfum. Þar skilar hann mögnuðu, martraðarkenndu hlutverki sem dregur áhorfandann inn í óþægilegt og sífellt óraunverulegri andrúmsloft. Smám saman fer hópurinn að átta sig á að eitthvað er verulega að – og að þeir séu komnir í klær hættulegs, snargeðveiks og morðóðs húsbónda.
Sheitan blandar saman kynferðislegri spennu, óþægilegri stemningu og bæði pólitískum og heimspekilegum undirtónum á þann hátt að áhorfandinn veit aldrei hvort hann eigi að hlæja eða skelfast. Myndin er skítug og villt, alls ekki ætluð öllum, en situr lengi í huganum og sýnir ágætlega hvernig hægt er að halda í „camp horror“ stemningu og samtímis fara út fyrir bandarísku formúluna.
7. The Final Girls (2015)
Leikstjórn: Todd Strauss-Schulson
Snjöll og óvænt tilfinningaþrungin hrollvekja þar sem ung stúlka og vinir hennar sogast inn í gamla „camp slasher“-mynd. Þar þurfa þau að fylgja reglum kvikmyndarinnar og forðast eigin dauða, eða reyna að breyta sögunni áður en hún endar.
Þrátt fyrir að vera fyndin og leikandi með klisjur, býr myndin yfir alvöru hjarta. Hún tekst á við sorg og minningar af einlægni og nær að vera bæði spaugileg paródía og virðingarvottur við tegundina.
6. Eden Lake (2008)
Leikstjórn: James Watkins
Einstaklega raunverulegur og óþægilegur hryllingur. Þegar ungt par fer í rómantíska helgarútilegu í enskum skógi lenda þau í átökum við hóp ofbeldisfullra unglinga.
Hér er ekkert yfirnáttúrulegt í spilinu, aðeins mannleg grimmd og stigvaxandi ótti. Spennan byggist upp með hægfara sálfræðilegri þróun og trúverðugri atburðarás. Myndin er ekki fyrir viðkvæma, en áhrifin sitja lengi í huganum eftir áhorf.
5. Cabin Fever (2002)
Leikstjórn: Eli Roth
Í frumraun Eli Roth dvelur vinahópur í einangruðum skógarkofa þar sem hræðileg, holdétandi veira brýst út. Myndin hefst eins og dæmigerð ungmennahrollvekja en þróast fljótlega í sjúklega brenglaðan og ógeðfelldan hrylling.
Þrátt fyrir miklar blóðsúthellingar og ofbeldi leynist í kvikmyndinni undirliggjandi húmor á köflum. Það sem situr þó helst eftir er ýktur og ógeðslegur splatter-hrollur með „camp“-fíling sem stigmagnast þar til allt fer úr böndunum.
4. I Know What You Did Last Summer (1997)
Leikstjórn: Jim Gillespie
Þó hún sé ekki beinlínis „camp“ mynd hefur þessi hrollvekja frá lokum tíunda áratugarins orðið að alvöru költmynd. Hópur ungmenna lendir í bílslysi sem veldur dauða ókunnugs manns. Þau fela sönnunargögnin en verða síðar skotmark dulbúins morðingja sem veit nákvæmlega hvað þau gerðu síðasta sumar.
Myndin stendur einhvers staðar á milli slasher-stíls Scream og Urban Legend, með drungalegri strönd, þoku, snöggum árásum og sterku spennuálagi. Hún er dimm, nostalgísk og ein eftirminnilegasta unglingahrollvekjan sem mótaði slasher hryllingsmyndir bæði á tíunda áratugnum og í þeirri þróun sem fylgdi í kjölfarið.
3. Scream (1996)
Leikstjórn: Wes Craven
Myndin sem endurvakti slashertegundina á tíunda áratugnum með óvenjulegri blöndu af húmor, sjálfsvitund og hryllingi. Scream segir frá unglingsstúlku í smábæ sem verður skotmark grímuklædds morðingja sem leikur sér að reglum slashermynda og brýtur þær jafnóðum.
Hún virkar bæði sem klassísk hrollvekja og metatúlkun á helstu klisjum tegundarinnar. Myndin byggir á snjöllum samtölum, sterkum persónum og óvæntum fléttum og hafði djúpstæð áhrif. Scream færði camphrollinn úr 80s formúlunni yfir í nútímalegra og meðvitaðra snið, sem enn mótar hryllingsmyndir í dag. Hún er stílhrein, tímalaus og eftirminnileg og lætur engan ósnortinn.
2. Evil Dead II (1987)
Leikstjórn: Sam Raimi
Evil Dead II er ólík öllum öðrum hrollvekjum. Hún er bæði framhald og endurræsing á fyrstu myndinni og algjör sprengja af ímyndunarafli, blóðsúthellingum og óvæntum húmor. Myndin fylgir Ash Williams sem ásamt kærustunni sinni fer í afskekktan skógarkofa, þar sem hann velur óvart upp forna djöfla með lestri úr aldagamalli, dularfullri bók „Necronomicon Ex-Mortis“. Fljótlega tekur við tryllt og martraðarkennd atburðarás þar sem Ash þarf að berjast við andsetna líkama, limlestingar, djöfladans og sívaxandi geðveiki, bæði í sjálfum sér og umhverfinu.
Það sem gerir myndina einstaka er hvernig hún blandar saman grófri splatter-stemningu við næstum teiknimyndalegan húmor, án þess þó að missa alvöru hryllinginn úr fókus. Hreyfingar myndavélarinnar eru sívirkar, hljóðhönnunin ýkt og tónlistin hræðilega skemmtileg. Bruce Campbell býr hér til eina eftirminnilegustu hrollvekjuhetju allra tíma, með andlitssvipi á mörkum hetju og fífla.
Evil Dead II er „camp horror“ í sinni skærustu, skemmtilegustu og frumlegustu mynd. Hún hristir upp í forminu, hæðist að því, elskar það og lyftir því upp í listform sem hefur haft áhrif á bæði hryllingsmyndir og gamanmyndir til dagsins í dag. Þetta er kvikmynd sem á ekkert skylt við raunveruleikann en speglar fullkomlega óttann, glórulausa ofbeldið og skringileika martraðanna sem búa í undirmeðvitund kvikmyndaunnenda.
1. The Texas Chain Saw Massacre (1974)
Leikstjórn: Tobe Hooper
Línan milli raunsæis og martraðar hefur sjaldan verið jafn óhugnanlega þunn. Í þessari tímamótamynd sem lagði grunn að heilum undirflokki hryllingsmynda rekst ungt fólk á sjúklega einangraða fjölskyldu í miðri Texas eyðimörkinni.
Miðpunktur hryllingsins er Leatherface, ein áhrifamesta og táknrænasta kvikmyndapersóna hryllingsmynda. Hann sameinar barnalega einfeldni og algjört ofbeldisæði. Óhugnaðurinn stafar ekki aðeins af grímu úr mannshúð og ærandi öskrum, heldur einnig af líkamlegri nærveru íslenska leikarans Gunnars Hansen. Leikur hans, ásamt hrottalegri úrvinnslu fórnarlambanna, var svo hrá og óvægin að slíkt hafði einfaldlega ekki sést áður í kvikmyndum.
The Texas Chain Saw Massacre er hrá og óþægileg en byggir upp yfirþyrmandi andrúmsloft með lágmarks tæknibrellum og verður ógleymanleg einmitt fyrir vikið. Þar liggur snilldin. Myndin hefur elst með reisn og stendur enn í dag sem ein áhrifamesta hryllingsmynd kvikmyndasögunnar, jafnvel ein áhrifamesta kvikmynd yfirhöfuð.
Hvort sem þú vilt hræðast, hlæja eða kúra með vasaljós og teppi (eða allt í senn), eru þessar myndir tilvaldar til að stilla sig inn á sumarmyrkrið, óttann og undirbúning fyrir dimmt haust og vetur. Hver veit? Kannski fær nýja I Know What You Did Last Summer sess við hlið þeirra með tímanum.
Þegar fimm vinir verða óvart valdir að banvænu bílslysi, hylma þeir yfir atvikið og gera samning um að halda því leyndu í stað þess að mæta afleiðingunum. Einu ári síðar kemur fortíðin og ásækir þá. Þeir þurfa að horfast í augu við hrollvekjandi staðreynd: Það er ...
Eftir banvænt bílslys gera fjórir vinir á unglingsaldri þau mistök að henda líki fórnarlambsins í sjóinn. Nákvæmlega einu ári síðar kemur fortíðin og ásækir þau þegar þau eru hundelt af manneskju með hræðilegan krók í hendi....













5.1
6/10 