Rourke og Rockwell eru illmenni í Iron Man 2

Stórleikararnir Mickey Rourke og Sam Rockwell eru nú í viðræðum við Marvel um að leika illmennin í ofurhetjumyndinni Iron Man 2, en eins og flestir muna eftir þá sló Iron Man rækilega í gegn með Robert Downey Jr. í aðalhlutverki.

Marvel hefur tekist að halda flestu leyndu þegar kemur að gerð framhaldsmyndarinnar, en það er vitað að Rourke myndi leika tattúveraðan Rússa sem breytist í Whiplash – mann sem býr yfir stórhættulegum tæknilegum eiginleikum til að myrða fólk og valda skaða. Rockwell myndi leika Justin Hammer, milljónamæring og mótherja Anthony Stark (Iron Man).

Iron Man 2 kemur út í Bandaríkjunum 7.maí 2010, og um svipað leyti á Íslandi, en nákvæm dagsetning hefur ekki verið ákveðin.