A24 tryggir sér réttinn á Dýrinu

Bandaríska framleiðslufyrirtækið A24 hefur tryggt sér dreifingaréttinn á kvikmyndinni Dýrið (e. Lamb) eftir Valdimar Jóhannesson, hans fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Um er að ræða eitt virtasta „indí“ fyrirtækið í kvikmyndaheiminum* og hefur hver titill frá merkinu á eftir öðrum sópað til sín lofi og verðlaunum.

Dýrið var nýverið á Cannes kvikmyndamarkaðnum og fara þau Noomi Rapace og Hilmir Snær Guðnason með aðalhlutverkin. Við stjórnvölinn situr Valdimar sem skrifaði einnig handritið í samvinnu við Sjón en framleiðendur eru Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim.

Myndin segir frá bændunum Maríu og Ingvari sem búa á afskekktum sveitabæ. Þegar Lítil og óvenjuleg vera kemur inn í líf þeirra verður breyting á högum þeirra sem færir þeim mikla hamingju um stund. Hamingju sem síðar verður að harmleik.

*Á meðal fjölmargra kvikmynda úr smiðju A24 má nefna Under the Skin, Spring Breakers, Ex Machina, Moonlight, Room, Lady Bird, The Florida Project, Hereditary, Mid90s, Midsommar, The Lighthouse og Uncut Gems.