Margir bjuggust við mynd um son Caesars

Þegar tilkynnt var um gerð kvikmyndarinnar Kingdom of the Planet of the Apes, nýjustu myndarinnar í hinni vinsælu Apaplánetuseríu, sem kemur í bíó í dag hér á Íslandi, þá bjuggust flestir við að þar yrði sögð saga sonar apaforingjans Caesars, Corneliusar. Það hefði verið eðlilegt framhald að margra mati þar sem Caesar, sem Andy Serkis leikur, lést í War for the Planet of the Apes frá 2017.

Menn áttu sem sagt von á að nýja myndin yrði beint framhald, en í staðinn er nú stokkið 300 ár fram í tímann. Og í staðinn fyrir að leikarinn Owen Teague leiki Cornelius, þá leikur hann hér ungan apa að nafni Noa, en við fáum að fylgjast með honum í myndinni nýju.

En ef þú berð enn von í brjósti um að sjá sögu sonar Caesars þá segir leikstjóri Kingdom, Wes Ball við Games Radar, að hann eigi allt eins von á að sú saga verði sögð í framtíðinni.

Kingdom of the Planet of the Apes (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.1
Rotten tomatoes einkunn 80%

Mörgum árum eftir valdatíð Caesars eru apar ráðandi dýrategund á Jörðinnni og búa í sátt og samlyndi við menn sem hafa dregið sig í hlé. Á sama tíma og nýr herskár api byggir upp veldi sitt, heldur ungur api af stað í erfitt ferðalag sem lætur hann efast um allt sem hann ...

Var engin freisting til staðar að segja þá sögu núna? “Nei ekki fyrir mig. Það var ekki það sem ég ætlaði mér að gera. Ég kann að meta að fólk vilji það en mér fannst það vera dálítið jarðsprengjusvæði því þú ert alltaf borinn saman við síðustu kvikmynd og það allt.”

Tækifæri fyrir einhvern

“En það er klárlega tækifæri fyrir einhvern einhversstaðar að segja eitthvað af þeirri sögu – sem er til einhversstaðar. En við töldum rétt að fá smá fjarlægð frá þessum kvikmyndum og sjá hvort við gætum byrjað upp á nýtt en með sterkar rætur. Okkur fannst það passa fyrir okkur.”

Ball viðurkennir í samtalinu að hann hafi upphaflega verið hikandi að taka við verkefninu, einkum vegna þess hve margir elska þríleikinn Rise, Dawn og War. Hann hafnaði í raun boðinu um að leikstýra myndinni í upphafi. En hvað varð til að hann skipti um skoðun?

Hann segir í samtalinu að það hafi verið sagan, að fjalla um stökkið í tíma og hvaða áhrif Caesar hefur haft. Og þó að Kingdom sé ekki um son Caesars, þá svífi andi hans yfir vötnum. Ball segir: “Ástæðan var sagan sem við sömdum. Fyrri þríleikurinn, þríleikur Caesars, er í svo miklum metum hjá fólki og við erum miklir aðdáendur. Og þar er svo góður endir – byrjun, miðja og endir, einn, tveir þrír. Það er frábær tala, þú vilt ekki vera númer fjögur.”

Kviknaði ljós

“Og þegar við áttuðum okkur á hvernig við þurftum ekki að vera númer fjögur, þá kviknaði ljós. Við sáum hvernig væri hægt að halda áfram með Caesar og hans arfleifð, og allt sem væri horfið. Við enduruppgötvum heiminn í gegnum augu Noa. Ég vona að myndin komi til með að hafa sérstöðu í Apaplánetumyndaflokknum – það eru komnar tíu núna.”