Illskan er smitsjúkdómur

Það vakti athygli í byrjun október sl. þegar lítil hrollvekja frá Argentínu laumaði sér í bíó í Bandaríkjunum, án þess að nokkur vissi hvaðan. Myndin heitir When Evil Lurks, eða Þegar hið illa liggur í leyni, í lauslegri íslenskri snörun, og hefur frá því hún var frumsýnd fengið frábæra dóma gagnrýnenda.

When Evil Lurks kom í bíó nú um helgina hér á Íslandi.

Myndin er til dæmis 98% fersk á Rotten Tomatoes vefsíðunni. Myndin þykir einstaklega hrottaleg, blóðsúthellingarnar sérlega raunverulegar, ofbeldið sláandi og sagan sjúklega hráslagaleg og svo virðist sem henni sé í mun að reyna að meiða áhorfendur í raun og veru.

Frá þessu er sagt á vefsíðunni The Movie Web.

Ekki ólík Evil Dead

Upplegg myndarinnar er ekki ólíkt og hjá hrollvekjunni Evil Dead, en án húmorsins, útilegunnar og náttúrunnar sem eru þar yfir og allt um kring, eins og The Movie Web segir. Með öðrum orðum, Evil Dead er skemmtileg á meðan When Evil Lurks er það ekki.  Heimur myndarinnar á sér sína eigin sögu og reglur sem gefa öllum upplýsingum einskonar dulúð og forvitni sem heldur þér spenntum, á meðan óþægilegt ofbeldið og tónn myndarinnar, halda þér alltaf á brúninni því þú veist aldrei hvað gerist næst.

When Evil Lurks (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7

Íbúar í litlu þorpi uppgötva að djöfull sé um það bil að fæðast í bænum. Í örvæntingu reyna íbúarnir að flýja áður en hið illa lítur dagsins ljós, en mögulega er það nú þegar orðið of seint. ...

Myndin gerist í heimi þar sem hið illa er meðhöndlað eins og smitsjúkdómur. Myndin gæti því verið flokkuð sem andsetningarmynd, en hið illa í myndinni er eins og eitthvað líffræðilegt frekar en andlegt.

Um leið og einhver smitast af illskunni þá verða þeir eitthvað sem kallast „rotið“ og ef það er ekki hreinsað burtu strax með öllu, þá geta afleiðingarnar verið svo voðalegar að heilu samfélögin gereyðast.

Dag einn finna bræðurnir Pedro og Jimmy rotinn mann, sem er um það bil að fara að fæða illsku. Þeir hafa ekki tíma til að ná í fagmann til að hjálpa sér og ákveða því sjálfir að reyna að leysa málið. Það gerir málið hinsvegar bara enn verra.

Að komast að því hvernig þeir rotnu virka, og hvað má og hvað má ekki þegar þú ert nálægt þeim, er hluti af því hvernig When Evil Lurks lokkar þig inn, segir Movie Web. Myndinni tekst prýðisvel að mata þig ekki á upplýsingum, né  heldur undirbýr hún þig undir hvað er að fara að gerast. Myndin færist bara áfram og treystir þér til að fylgjast með, og myndin veit að við verðum enn áhugasamari fyrir vikið. Þetta er hressandi nálgun sem er því miður alltof sjaldgæf í kvikmyndum dagsins í dag, eins og Movie Web klikkir út með að segja.