Áfram tilefni til að brosa breitt

Engin kvikmynd komst nálægt því að ógna stöðu hrollvekjunnar Smile á toppi íslenska bíóaðsóknarlistans nú um helgina. Fjöldi splunkunýrra kvikmynda voru þó frumsýndar eða endurfrumsýndar, myndir eins og Alan litli, Amsterdam, Mrs. Harris Goes to Paris og Sundlaugasögur.

Óttaslegin.

Eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan námu tekjur Smile rúmum sjö milljónum króna sem er þrisvar sinnum meira en hjá myndinni í öðru sætinu. Þar er komin íslenska glæpamyndin Svartur á leik sem nú er endursýnd við töluverðar vinsældir.

Þriðja sætið fellur svo fyrrum toppmyndinni Abbababb í skaut. Hún var í öðru sæti í síðustu viku.

Söguleg frammistaða Smile

Í frétt BoxOfficeMojo er kvartað yfir bíóaðsókn í Bandaríkjunum en í fréttinni segir að það sé alveg ljóst að áhorfendur skili sér í bíó á áhugaverðar kvikmyndir. Þar sé Smile gott dæmi en tekjur myndarinnar á annarri viku í sýningum í Bandaríkjunum sýni hve vel myndin heldur vinsældum sínum. 22,6 milljónir dala komu í kassann á frumsýningarhelginni en 17,6 milljónir á annarri helgi í sýningum. Það er aðeins 22% samdráttur milli vikna, sem þykir gott.

Fram úr The Black Phone

Þessar vinsældir á annarri sýningarhelgi eru einhverjar þær mestu í hryllingsmyndasögunni eins og BoxOfficeMojo fjallar um. Þá hefur myndin forskot á tekjuhæstu hrollvekju ársins, The Black Phone. Smile er komin með samtals 49,9 milljónir dala í kassann en The Black Phone hafði aflað 47,4 milljóna á fyrstu tíu dögunum í sýningum. Tekjur hennar urðu samtals 89,9 milljónir dala í bíó í Bandaríkjunum áður en yfir lauk.

Sjáðu íslenska listann í heild sinni hér fyrir neðan: