Alæta á allt nema subbulegar ofbeldismyndir

Glænýtt hlaðvarp hóf göngu sína á Mbl.is á dögunum sem ber einfaldlega heitið BÍÓ og við hvetjum fólk eindregið til að kynna sér þáttinn. Umsjónarmaður er Helgi Snær Sigurðsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, ásamt Þóroddi Bjarnasyni frá Kvikmyndir.is, sem einnig er blaðamaður á Mogganum. Ber þess að geta að allir þættirnir verða aðgengilegir á Kvikmyndir.is undir viðkomandi mynd.

Ritstjóri Kvikmyndir.is ræddi örstutt við Helga Snæ og segir hann hlaðvarpið vera um allt milli himins og jarðar í tengslum við kvikmyndir. Fjallað verður vítt um listformið, ekki aðeins efnið sem kemur í bíó heldur líka á veitum auk þess að bjóða upp á fróðleik og spjall í bland.

„Við fáum bíóáhugafólk í heimsókn og spáum í eitt og annað viðkomandi einni eða fleiri myndum,“ segir Helgi. „Það getur einnig verið að við förum af og til aðrar leiðir og fjöllum um tiltekna leikstjóra, tímabil í kvikmyndasögunni eða jafnvel leikara. Þetta verður allt opið.“

Helgi Snær ásamt breska leikaranum Ralph Fiennes. Myndin er tekin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum árið 2018.

Laus við bíósnobbið

Þá tekur Helgi fram að gestir hlaðvarpsins verði af ýmsu tagi, ekki einungis sérfræðingar eða kvikmyndafræðimenn. „Aðalatriðið er að þetta sé skemmtilegt fólk með skoðanir,“ segir hann hress.

Þegar Helgi er spurður hvort sé einhver tiltekinn geiri eða tegund kvikmynda sem honum þykir meira krefjandi til áhorfs en önnur lýsir hann sjálfum sér sem alætu á kvikmyndir. Hann reynir þó að forðast þær sem hann telur vera augljós sóun á tíma.

„Stundum getur verið gaman að sjá myndir sem eru svo lélegar að þær verða hin besta skemmtun,“ segir Helgi. „En ef ég ætti að nefna myndir sem ég hef engan áhuga á, þá eru það subbulegar ofbeldismyndir á borð við Saw-syrpuna og hörmulega lélegar gamanmyndir í líkingu við Grown Ups. Að öðru leyti er ég nokkuð laus við bíósnobbið.“

Í nýjasta þætti hlaðvarpsins BÍÓ er fjallað um Pain and Glory eftir Pedro Almodovar. Anna Halldórsdóttir tónlistarkona er gestur þáttarins.