Aldrei í bíó, en vilja sjá Gravity

Geimspennumyndin Gravity eftir leikstjórann Alfonso Cuarón sem skrifaði einnig handrit myndarinnar ásamt syni sínum Jonas, hefur slegið í gegn í Bandaríkjunum og er nú þriðju vikuna í röð aðsóknarmesta myndin þar í landi. Myndin var frumsýnd hér á landi nú um helgina.

gravity

Það sem kemur á óvart er að myndin, sem var lengi í undirbúningi og leit lengi vel út fyrir að líta alls ekki dagsins ljós, höfðar til mjög breiðs hóps, ungra og gamalla, manna og kvenna, kvikmyndaáhugamanna, vísindaskáldsögunörda og kristinna, svo einhverjir markhópar séu nefndir.

Vefútgáfa bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal fjallar um þetta og bendir á hvað þetta er óvenjulegt, að ekki sé talað um þá staðreynd að gagnrýnendur eru einnig mjög hrifnir, en það er ekki oft sem þetta fer allt saman í einni mynd.

Ted Mundorff forstjóri Landmark Theatres bíókeðjunnar, sem rekur 50 bíóhús í Bandaríkjunum, segir að eldra fólk hringi inn til að spyrja hvernig þessi þrívídd virki. „Við erum að fá fólk í bíó sem hefur ekki farið í bíó í meira en 10 ár.“

Ef fram heldur sem horfir þá er líklegt að Gravity endi með að þéna 500 milljónir Bandaríkjadala í aðgangseyri á heimsvísu, en slík aðsókn er sjaldséð þegar ekki er um að ræða ofurhetjumynd eða mynd sem frumsýnd er að sumri til eða þegar Bandaríkjamenn eru í fríi.  Þó er ólíklegt að Gravity nái sömu hæðum og Iron Man 3 til dæmis en sú mynd hefur þénað meira en 1,2 milljarða Bandaríkjadala frá því hún var frumsýnd í vor.

Fáir sáu möguleikana upphaflega í að gera mynd eftir sögunni, sem fjallar um lækni í ástarsorg sem reynir að finna lífsviljann og tilganginn í lífinu, eftir að hafa lifað af slys í geimnum. Sú hugmynd að myndin þyrfti að stóla á nýja og ónotaða tækni til að líkja eftir þyngdarleysi, þar sem hugmyndir eins og „upp“ og „niður“ hafa enga þýðingu, jók enn á óvissuna. Sumt af tækninni sem handritið krafðist var ekki einu sinni búið að finna upp.

„Þetta var kvikmynd full af hræðilegum hugmyndum, amk. miðað við það sem almennt var talið,“ sagði framleiðandi myndarinnar David Heyman. „Þetta er spennumynd með konu í aðalhlutverki. Það eru bara tvær persónur, og önnur þeirra er alein í meira en klukkustund. Hún er á bakvið glerhjálm hálfa myndina. Þetta ætti ekki að virka.“

Myndin kostaði 105 milljóinr Bandaríkjadala.

Ráðning leikara gekk ekki snurðulaust. Upphaflega vildu menn fá Angelina Jolie og Robert Downey Jr., síðan Natalie Portman, Marion Cotillard og Naomi Watts, en rétt áður en tökur áttu að hefjast árið 2011 samþykktu Bullock og Clooney að leika.

Eftir að myndin var tilbúin var enn óvissa í loftinu, en viðbrögð við prufusýningum voru ekki nógu góð. „Þetta leit ekki út fyrir að verða svona stórt,“ sagði yfirmaður alþjóða markaðsdeildar Warner Bros kvikmyndaversins, Sue Kroll.

Gravity hefur nú þegar þetta er skrifað þénað meira en 200 milljónir Bandaríkjadala á alheimsvísu og enn á eftir að sýna myndina á stórum mörkuðum eins og í Kína, Bretlandi, Japan og í heimalandi leikstjórans, Mexíkó.

Smelltu hér til að lesa grein The Wall Street Journal í heild sinni.