Gravity skín skært í USA

Nýja Tom Hanks myndin Captain Phillips nær ekki að velta geimmyndinni Gravity úr toppsæti bandaríska aðsóknarlistans, en útlit er fyrir að Gravity, sem var toppmynd síðustu helgar, þéni 43 milljónir Bandaríkjadala í Bandaríkjunum þessa helgina.

Sandra Bullock og George Clooney leika aðalhlutverkin í Gravity, eftir Alfonso Cuarón.

Samanlagt er myndin búin að þéna 91,9 milljónir dala í Bandaríkjunum yfir tvær helgar miðað við þessar áætluðu tölur.

gravity

Þó að Captain Phillips hafi ekki náð toppsætinu, þýðir það ekki að myndin sé misheppnuð á neinn hátt, en útlit er fyrir að myndin muni þéna 25 milljónir dala yfir helgina alla.

Myndin hefur hlotið góðar viðtökur gagnrýnenda og hlotið gott umtal hjá þeim sem hafa séð hana.

Myndin sem hinsvegar virðist ekki vera að ná markmiðum sínum er nýjasta mynd Robert Rodriguez, Machete Kills, en þrátt fyrir stjörnufans í myndinni ( Mel Gibson, Lady Gaga, Antonio Banderas, Charlie Sheen ofl. ) þá er útlit fyrir að myndin nái einungis að þéna 3,5 milljónir dala yfir helgina alla, en menn voru að vonast eftir 10 milljónum dala í síðustu viku.

Yfirmenn hjá framleiðslufyrirtækiniu Open Road eru þó ekkert að missa svefn yfir þessu, þar sem myndin kostaði þá einungis 2 milljónir dollara, og ef hún stendur sig jafnvel og fyrri myndin, Machete, í framhaldinu, þá er engin ástæða til að hafa áhyggjur.