Í stuttu máli er „The Mule“ hin fínasta mynd sem þolir þó illa nærskoðun en aldraður Eastwood stendur fyrir sínu.
Earl Stone (Clint Eastwood) er tæplega níræður garðyrkjufræðingur sem ávallt tók starf sitt mjög alvarlega á kostnað gæðasamskipta við fjölskyldu sína. Þegar harðnar í ári hjá honum og hann stendur frammi fyrir gjaldþroti býðst honum skyndilega leið til að bæta hag sinn. Hann þarf bara að keyra farm frá einum stað til annars og fyrir vikið fær hann fúlgur fjár. Vandamálið er að farmurinn er haugur af eiturlyfjum fyrir mexíkóska eiturlyfjabaróna. Earl sættir sig þó við það og nýtur þess að keyra um, græða pening og nýta hann til góðra hluta.
Honum gengur þó illa að koma sér í mjúkinn hjá fyrrverandi eiginkonu sinni og dóttur á sama tíma og hann er mikils metinn hjá glæponunum. Áfall í fjölskyldunni neyðir Earl þó til að velja á milli fjölskyldu og vinnu…og vinnuveitendurnir eru af hættulegri gerðinni. Bak við tjöldin hefur svo metnaðarfull fíkniefnalögga, Colin Bates (Bradley Cooper), komist á snoðir um Earl.
Eastwood er 88 ára gamall og hann er ekkert farinn að taka því rólega. “The Mule” er önnur mynd hans á tæpu ári sem leikstjóri og hér bregður hann sér einnig fyrir framan myndavélina. Kvikmyndin er kannski full einfeldnisleg þegar til kastanna kemur og býður fram margtugginn boðskap um gildi fjölskyldu og eftirsjá slæmrar forgangsröðunar. Leikstjórinn Eastwood kann þó alveg að keyra söguna áfram og framkalla talsverða spennu þegar öll sund virðast lokuð hjá Earl og annað hvort stefnir allt í blóðuga aftöku af hendi eiturlyfjabaróna eða laganna verðir hafa hendur í hári hans. Leikarinn Eastwood býr til skemmtilegan karakter úr Earl og áhorfandinn vill helst sjá hann komast heilan út úr þessu öllu saman.
En handritið að “The Mule” þolir illa nærskoðun og ýmislegt er hægt að týna til sem dregur úr gæðum myndarinnar. Persóna Earl er ekki nægilega vel skilgreind en sumt í fari hans er helst til of harðneskjulegt og í anda karlmennskuímyndar Eastwood allan hans feril á meðan sumt virkar frekar mannlegra og nær raunveruleikanum. Einnig má draga í efa heilbrigða skynsemi hans en á öðrum stundum er hann svo úrræðagóður að það hálfa væri nóg. Tímalínan er líka fremur furðuleg þegar á líður og þáttur fíkniefnalögreglunnar virkar hálf snubbóttur, klisjukenndur og hraðsoðinn. Allt sem snýr að viðskiptum Earls við eiturlyfjabarónanna og þeirra mýmörgu starfsmanna er aftur á móti mun betur leyst af hendi.
Eastwood hugar þó vel að styrkleikum sögunnar og þessi óvenjulega stefna í lífi Earls býr til mörg skemmtileg augnablik og góðum húmor er skellt inn á ólíklegustu augnablikum. Einvalalið leikara mannar öll hlutverk og flestir gera sér mat úr frekar einsleitum rullum. Cooper fer létt með hlutverk Colin og fær nokkur atriði til að gefa honum smá persónuleika. Laurence Fishburne skemmir aldrei fyrir þó rulla hans sem yfirmaður Colins gefi lítið svigrúm fyrir tilþrif og Andy Garcia er stórskemmtilegur í hlutverki eiturlyfjabaróns sem er hæstánægður með framlag Earls til starfseminnar. Nýstyrnið Ignacio Serricchio nær uppi góðum samleik með Eastwood sem metnaðarfullur starfsmaður hjá eiturlyfjasamtökunum og loks er Dianne Wiest fantagóð sem fyrrverandi eiginkona Earls.
Sennilega vildi Eastwood drífa sig aftur í leikstjórastólinn eftir hina afar mislukkuðu “The 15:17 to Paris” og bara bónus fyrir okkur hin að hann skyldi vilja leika í henni líka. Saga Earl er frekar spes en hún er byggð á sönnum atburðum sem gerir hana enn merkilegri. Engu púðri er eytt í samfélagslegan fyrirlestur um þann skaða sem mannleg burðardýr valda (en 90 ára kauðinn var sæmilega stórtækur í þeim efnum) heldur notar Eastwood söguna sem áminningu um að það er aldrei of seint að snúa blaðinu við og forgangsraða rétt.