Amell staðfestir 50 Shades of Grey viðræður

Leikarinn Stephen Amell sem leikur í sjónvarpsþáttunum Arrow, hefur staðfest að hann eigi í viðræðum um að leika í kvikmynd sem byggð verður á metsölubókinni 50 Shades of Grey eftir E.L. James. 

„Ég fæ endalausar spurningar um Christian Grey,“ segir Amell í vídeói sem hann setti á Facebook síðu sína þar sem hann brást við sögusögnum um ofangreint. „Þetta verkefni er enn langt í burtu. Ég veit það, af því að ég var á fundi útaf því.“

Hin djarfa skáldsaga 50 Shades of Grey fjallar um milljarðamæringinn og athafnamanninn Christian Grey sem tælir menntaskólastúlku að nafni Anastasia Steele. Þau eiga í ástríðufullu sambandi þar sem við sögu koma svipur, keðjur og funheitt og sjóðandi kynlíf.

Þó að Amell hafi ekki sagt neitt meira að sinni um möguleikann á því að hann muni leika í myndinni, eða hvaða hlutverk um er að ræða, þá má ráða af orðum hans í vídeóinu að um sé að ræða hinn fjallmyndarlega og vöðvastæla Grey.

Ýmsir hafa verið nefndir í hlutverk Grey. Ian Somerhalder hefur leynt og ljóst stefnt að því að hreppa hlutverkið, en einnig hafa leikararnir Matt Bomer, Ryan Gosling, Alexander Skarsgård og Max Greenfield verið nefndir til sögunnar.