Arnold, DeVito og Murphy eru þríburar

Á sérstökum tíma frá árunum 1988 til 1994 leikstýrði og framleiddi grín-goðið Ivan Reitman tveimur kvikmyndum með þeim Arnold Schwarzenegger og Danny DeVito í aðalhlutverki: Junior og Twins. Ein fjallaði um óléttan Arnold, á meðan hin fjallaði um ólíklegu fjölskyldubönd þeirra félaga. Sem betur fer hefur Junior 2 ekki enn séð dagsins ljós, en hins vegar var það staðfest í gær að félagarnir munu fá nýjan bróður í myndinni Triplets.

Ef tilhugsunin um framhald að Twins er ekki nógu súrrealísk, þá var það einnig staðfest að Eddie Murphy mun leika týnda bróðurinn.
Samkvæmt fyrstu myndinni fæddust tvíburarnir í rannsóknarstofu og vegna genarannsókna fékk Arnold öll góðu genin á meðan DeVito fékk þau slæmu; með þessu var „útskýrt“ bæði stærðar- og útlitsmun mannanna. Hvaða hálfbökuðu vísindarútskýringu við fáum í Triplets verður bara að koma í ljós.

Tilkynning framhaldsins virðist vera einstaklega úr hægri átt, en DeVito hefur áður sagt að eina leiðin til að hann myndi taka þátt í framhaldi væri ef „sagan væri rétt“ og „handritið gott“; greinilega hefur hann komist að þeirri niðurstöðu með þáttöku Murphys. Annars mun Ivan Reitman snúa aftur sem framleiðandi myndarinnar, en skilur í þetta skiptið leikstjórastólinn eftir tóman.
Að svo stöddu er ekki meira vitað um framhaldið, enda mynd sem jafnvel Reitman bjóst ekki við að yrði gerð. Twins var svo einstaklega fjölskylduvæn og mikið miðjumoð að það er spurning hvort að fáranleg inntaka Murphys kryddi ekki hlutina smá.