Avatar 2, 3 og 4 fá Sam og Zoë

Aðalleikarar þrívíddarævintýrisins Avatar eftir James Cameron, þau Sam Worthington og Zoë Saldana hafa skrifað undir samning um að leika í öllum þremur næstu Avatar myndum, sem verða framhald hinnar geysivinsælu Avatar frá árinu 2009, vinsælustu mynd sögunnar. Myndin þénaði 2,8 milljarða Bandaríkjadala.

sam worthingon

Worthington snýr aftur í hlutverki Jake Sully, fatlaða hermannsins sem fær nýtt líf úti í geimnum á plánetunni Pandora, þar sem hann þarf ekki að vera bundinn hjólastól. Saldana mun leika á ný hlutverk Neytiri.

Framhaldsmyndirnar þrjár verða teknar upp samtímis, og er von á fyrstu myndinni í desember árið 2016. Önnur myndin kemur á sama tíma árið eftir og sú þriðja sömuleiðis í desember 2018.

zoe saldana

Handrit Avatar 2 skrifar Cameron sjálfur ásamt Josh Friedman (War of the Worlds). Avatar 3 skrifar Cameron með Rick Jaffa & Amanda Silver (Rise of the Planets of the Apes) og  Avatar 4 með Shane Salerno (Savages, Salinger).