Myndin sem svo margir hafa beðið spenntir eftir að fá í bíó, Avengers: Endgame, er loksins komin í sýningar, í allri sinni þriggja klukkutíma löngu dýrð.
Myndin markar endapunkt í röð 22 Marvel Cinematic Universe mynda, sem hófst með frumsýningu Iron Man árið 2008, eins og The Independent greinir frá á vef sínum, og er gjarnan vísað til sem „The Infinity Saga“.
Eitt ár er síðan síðasta Avengers kvikmynd var frumsýnd, Avengers: Infinity War, en aðdáendur myndaflokksins hafa beðið spenntir eftir að sjá hvort ofurhetjurnar sem urðu illilega fyrir barðinu á hinum gríðar öfluga Thanos, sem Josh Brolin leikur, og urðu að dufti, verði með einhverjum hætti lífgaðar við af félögum sínum, meðal annars þeim Captain America, Black Widow og Iron Man.
Kitla ekki Spider-Man
En eitt af því sem aðdáendur spyrja sig að nú, er hvort aukaefni birtist eftir að „kreditlistinn“ svokallaði hefur rúllað í lok myndar.
Allt síðan í Iron Man myndinni, þá hefur Marvel haft litlar kitlur alveg í blálok myndanna eftir kreditlistann eða á meðan hann er að spilast, þar sem gefin eru fyrirheit um næstu myndir í seríunni.
Það sem kemur mest á óvart, samkvæmt The Independent, um Endgame, og þar er víst enginn skortur á óvæntum hlutum, er að það eru engin atriði birt eftir kreditlistann. Þetta kemur sem sagt mörgum á óvart þar sem menn töldu að Marvel myndi amk. kitla menn aðeins fyrir næstu Marvel mynd sem kemur í júlí, Spider-Man: Far From Home.
Annað sem kemur minna á óvart er að engin fullvissa er gefin fyrir því að Avengers gengið muni snúa aftur.
En hvort sem að meðlimir Avengers eru sestir í helgan stein, eða muni halda áfram að vernda okkur fyrir illum öflum allstaðar að úr alheiminum, þá er sem sagt eitt sem er alveg víst, að þeir munu ekki gera það í sameiningu í sérstakri Avengers mynd, því serían hefur nú runnið sitt skeið, að því er The Independent segir.