Stórleikarinn Christian Bale, sem er þessa stundina að leika leðurblökumanninn, Batman, í The Dark Knight Rises er að pæla í að taka að sér hlutverk aðalþorparans í endurgerð bandaríska leikstjórans Spike Lee af suður-kóreaska spennutryllinum Oldboy, eftir Park Chan-wook. Frá þessu segir í Variety í dag.
Þátttaka í endurgerð Lee, er eitt af mörgum hlutverkum sem Bale gæti tekið að sér eftir að hann er búinn að leika í The Dark Knight Rises, sem verður líklega síðasta Batman myndin hans.
Auk Oldboy, þá er talað um að Bale sé að velta fyrir sér að leika í endurgerð myndarinanar A Star is Born, þar sem söng- og leikkonan Beyoncé leikur aðalhlutverkið og sjálfur Clint Eastwood leikstýrir. Einnig er hann orðaður við mynd Darren Aronofsky Noah, sem gera á eftir biblíusögunni um Örkina hans Nóa, og Gold eftir leikstjórann Michael Mann. Gold ku vera nútíamlegur spennutryllir í stíl við hina sígildu mynd John Huston frá 1948; The Treasure of the Sierra Madre, en í henni lék Humphrey Bogart gullgrafara í Mexíkó á þriðja áratug síðustu aldar.
Einnig hefur Bale skrifað undir samning um að leika í næstu mynd Terrence Malick, sem ekki hefur fengið nafn ennþá.
Spike Lee var staðfestur sem leikstjóri Oldboy í júlí sl., en hann mun ætla að fylgja upphaflegu myndinni í öllum aðalatriðum.
Upprunalega Oldboy myndin er ofbeldisfull saga um hefnd, og er best þekkt fyrir senu þar sem kolkrabbi er étinn lifandi.
Myndin vann Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2004 og fékk einnig sérstakt hrós frá formanni dómnefndar það ár, Quentin Tarantino.