Barátta fyrir réttlæti og viðurkenningu

Leikararnir í flugmyndinni Devotion, sem kemur í bíó hér á Íslandi í dag, þykja slá í gegn. Myndin er smart og fáguð og hefst á loft þegar áhorfandinn á síst von á því. Devotion er byggð á raunverulegum atburðum sem áttu sér stað í Kóreustríðinu.

Byggt á raunverulegum atburðum.

Myndin er einlæg og átakanleg og skyggnist inn í líf orrustuflugmannanna Jesse Brown og Tom Hudner, auk þess að gægjast inn í líf traustra félaga þeirra á tímum mikillar ógnar.

Fórnir sem menn færa

Myndin er byggð á bókinni Devotion: An Epic Story of Heroism, Friendship and Sacrifice eftir Adam Makos. Í Devotion er rýnt í hetjurnar sem hafa barist og berjast enn fyrir jafnrétti. Rýnt í sögurnar sem aldrei hafa verið sagðar. Þetta er stríðsmynd sem fjallar um aðskilnað kynþátta, hugrekki og þær fórnir sem menn færa til að verja land sitt.

Nýtur aldrei sannmælis

Sem fyrr segir er sögusviðið Kóreustríðið. Kastljósinu er beint að Jesse Brown, fyrsta svarta orrustuflugmanninum. Hann er vel þjálfaður og fær orrustuflugmaður sem aldrei nýtur sannmælis aðallega vegna hörundslitar síns. Jesse kljáist við fordóma í sjóhernum, sem nýlega hefur aflagt aðskilnaðarstefnu milli kynjanna og félagar hans í flugsveitinni eru engu skárri en foringjarnir. Kemur þá til sögunnar Tom Hudner liðsforingi sem gengur til liðs við flugsveit Jesse. Milli þeirra myndast gagnkvæm virðing og aðdáun á hæfni hvor annars í háloftunum. Jesse er eina svarta andlitið í hafsjó hvítra. Hann verður sífellt að sanna sig í hlutverkinu sem hann hefur helgað sig.

Rekast á Elizabeth Taylor

Athyglisverð atburðarás færir sviðið á frönsku Rívíeruna þar sem þeir rekast á bandarísku kvikmyndagyðjuna Elizabeth Taylor sem býður piltunum í spilavíti. Jesse verður enn á ný fyrir kynþáttafordómum og Tom reynir að verja félaga sinn gegn hópi landgönguliða. Þegar þeir koma aftur til Kóreu fer flugsveitin í för sem reynist mjög hættuleg og þegar þota Jesse verður fyrir skoti reynir mjög á Tom, sem kemur til aðstoðar við mjög hættulegar aðstæður.

Fróðleikur

-Bandaríski sjóherinn nefndi herskip til heiðurs Jesse Brown. USS Jesse Brown FF1089, Knox Class, var hleypt af stokkunum 17. febrúar 1973 og tekið úr notkun 27. júlí 1994.

-Jesse Brown var fyrsti þeldökki orrustuflugmaðurinn í bandaríska sjóhernum.

-Myndin var tekin í Bandaríkjunum en ekki Kóreu.

Aðalhlutverk: Jonathan Majors, Glen Powell, Serinda Swan, Thomas Sadowski, Joseph Cross og Daren Kagasoff.

Handrit: Jake Crane, Adam Makos og Jonathan Stewart

Leikstjórn: J.D. Dillard