Ben Affleck þykist gera bíómynd í Argo

Ben Affleck er heldur betur búinn að sanna sig í leikstjórastólnum, með Gone Baby Gone og The Town og eru því flestir spenntir að sjá útkomuna úr þriðja leikstjórnarverkefni hans, Argo. Ný stikla úr myndinni var að detta á netið, og þeir sem vilja geta skoðað hana hér:

Myndin er byggð á sönnum atburðum, er var haldið leyndum frá almenningi þangað til nýlega. Sagt er frá glæfralegri björgunaraðgerð sem CIA setti upp til þess að ná sex Bandaríkjamönnum úr gíslingu í Íran þegar byltingin þar var í hámarki, en í hjarta áætlunarinnar var gervi vísindaskáldsögumyndin Argo, sem leyniþjónustumennirnir þóttust vera að framleiða.

Ben Affleck leikur sérfræðing CIA í dulargervum, Tony Mendez, á meðan Bryan Cranston leikur annan útsendara CIA, Jack O’Donnell. John Goodman mun fara með hlutverk förðunarmeistarans John Chambers, sem vann m.a. Óskarsverðlaun fyrir upprunalegu Planet of the Apes, og Alan Arkin leikur kvikmyndaframleiðandann Lester Siegel. Myndin kemur út í haust.