Kvikmyndasafn Íslands og Bíó Paradís kynna einstakt kvöld með klassískum kvikmyndum, fræðslu og umræðum.
Sunnudaginn 26. október 2025 heldur Bíótekið áfram metnaðarfullri dagskrá sinni í Bíó Paradís, þar sem kvikmyndasaga heimsins er skoðuð í nýju ljósi.
Þá býðst áhorfendum að upplifa þrjár stórmerkilegar kvikmyndir – íslenska sjónvarpsklassík, franska framtíðarvisjón og japanskt myndrænt meistaraverk.
Eftir sýningar fara fram umræður með gestum og fræðafólki sem dýpka upplifunina og setja verkin í samhengi við samtímann.
14:30 – Hvað er í blýhólknum? (1971)
Eftir sýningu: Umræður með Veru Sölvadóttur og Guðrúnu Ásmundsdóttur
Í tilefni þess að hálf öld er liðin frá Kvennafrídeginum sýnir Kvikmyndasafn Íslands í samstarfi við RÚV sjónvarpsleikritið Hvað er í blýhólknum? eftir Svövu Jakobsdóttur, í leikstjórn Maríu Kristjánsdóttur.
Verkið fjallar um Ingu, dæmigerða íslenska nútímakonu, og hvernig samfélagið mótar og ráðskast með örlög hennar.
Leikhópurinn Gríma setti verkið fyrst upp árið 1970, sama ár og Rauðsokkahreyfingin var stofnuð, og árið 1971 var það kvikmyndað og frumsýnt á RÚV.
Myndin er áhrifamikill samtímaspegill á kvennabaráttu áttunda áratugarins og sýnir hugrekki Svövu sem baráttukonu og höfundar.
17:00 – Alphaville (1965)
Sýnd í samstarfi við Franska sendiráðið
Jean-Luc Godard sameinar hér vísindaskáldskap í anda film noir við ádeilu á tækni og stjórnmál.
Í skálduðu framtíðarborginni Alphaville ræður tölvan Alpha 60 yfir mannkyninu þar sem köld rökhugsun hefur útrýmt tilfinningum og ást er orðin bannorð.
Leyniþjónustumaður er sendur til að finna og tortíma skapara tölvunnar, en kynnist í leiðinni dóttur hans — og ástinni sjálfri.
Alphaville er bæði stílfært og heimspekilegt verk sem veltir fyrir sér frelsi mannsins, gildi tilfinninga og hættunni sem felst í því þegar tæknin tekur stjórnina.
Kvikmyndin hefur sjaldan átt jafn mikið erindi við samtímann og nú, á tímum gervigreindar og stjórnlausrar tækniþróunar.
19:00 – Conflagration (1958)
Sýnd í samstarfi við japanska sendiráðið
Japanska meistaraverkið Conflagration (Enjō) eftir Kon Ichikawa byggir á hinni frægu skáldsögu The Temple of the Golden Pavilion eftir Yukio Mishima.
Myndin segir frá ungum munk sem verður heltekinn af leitinni að fullkominni fegurð – leit sem endar með hörmulegum voðaverki.
Kvikmyndin sameinar sálfræðilega dýpt og myndrænt yfirbragð sem fáar myndir geta státað af.
Tökumaðurinn Kazuo Miyagawa fangar fegurð og eyðileggingu með ógleymanlegri nákvæmni, og aðalleikarinn Raizō Ichikawa hlaut bæði Blue Ribbon og Kinema Junpo verðlaunin fyrir leik sinn.
Leikstjórinn sjálfur taldi þessa mynd meðal sinna kærustu verka – og það endurspeglast í hverri senu.
Um Bíótekið
Bíótekið er nýtt samstarfsverkefni Kvikmyndasafns Íslands og Bíó Paradísar.
Markmiðið er að opna dyr að kvikmyndasögunni með reglulegum sýningum þar sem áhersla er lögð á menningarleg og listræn gæði, fræðslu og samtal.
Sýndar verða valdar íslenskar og erlendar kvikmyndir einn sunnudag í mánuði, frá september 2025 fram í apríl 2026.
Boðið verður upp á sérstaka viðburði, fræðslu og umræður í tengslum við hverja sýningu.
Miðaverð: 1.290 kr.
Frekari upplýsingar á kvikmyndasafn.is og bioparadis.is
Verkið fjallar um Ingu, dæmigerða íslenska nútímakonu, og hvernig áhrif samfélagsins móta hana og ráðskast með örlög hennar....
Bandarískur leyniþjónustumaður er sendur til hinnar fjarlægu geimborgar Alphaville, þar sem hann þarf að leita uppi týnda manneskju, og frelsa borgina undan oki einræðisherra....
Sálfræðilegt drama um ungan munk sem verður heltekinn af leitinni að fullkominni fegurð, leit sem endar með hörmulegu voðaverki....
Raizō Ichikawa fékk bæði Blue Ribbon og Kinema Junpo verðlaunin sem besti leikari.





7
7/10 

