Gallsúr hrollvekja – nýtt plakat og stikla

Kvikmyndaklúbburinn Svartir sunnudagar í Bíó Paradís býður upp á sýningu á gallsúrri japanskri hrollvekju, eins og það er orðað í tilkynningu frá bíóinu, á sunnudaginn næsta kl. 20.

Um er að ræða kvikmyndina House eftir Nobuhiko Obayashi sem er lýst sem undarlegri fantasíu hrollvekju og er frá árinu 1977.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

„House, eða Hausu eins og hún heitir uppá japönsku, var upphaflega framleidd sem einhverskonar svar japana við Jaws en leikstjórinn, Nobuhiko Obayashi, fékk að mati framleiðendanna aðeins of frjálsar hendur og úr varð einhver sérstakasta hrollvekja sem sést hefur á hvíta tjaldinu.
Andsetið hús, japanskar skólastúlkur og hvítur angóra köttur sem reynist vera djöfullinn sjálfur sameinast í House, sem hefur í gegnum árin skipað sér á bekk meðal helstu cult mynda og er í dag mærð meðal hrollvekjuaðdáenda um allan heim.“

Plaköt eru sérhönnuð fyrir allar myndir sem sýndar eru í Svörtum sunnudögum. Plakat fyrir House er sérhannað af Geoffrey Þ. Huntingdon-Williams.

Myndin verður sýnd kl. 20 sunnudagskvöldið 16. desember og verður þetta síðasta sýning Svartra sunnudaga fyrir jól.

Í tilkynningu Svartra sunnudaga segir einnig að klúbburinn muni bjóða upp á æsilega jóladagskrá sem kynnt verði síðar.