Hrekkjavakan er á þriðjudaginn næsta og grasker og annað hrekkjavökudót má nú finna í helstu verslunum hér á landi, sem sýnir að hrekkjavakan hefur náð góðri fótfestu hér á landi. Hrekkjavökupartý eru haldin um allan bæ, og skólar halda hrekkjavökuhátíðir, með tilheyrandi blóði og hryllingsbúningum.
IMDB Halloween myndband
Bíó og sjónvarp eru gjarnan lituð af þessari hátíð og margar hrollvekjur jafnan í boði í Bandaríkjunum á þessum tíma ársins. Íslensku efnisveiturnar og bíóin láta ekki sitt eftir liggja og Sjónvarp Símans sendi til dæmis frá sér tilkynningu fyrir helgi, þar sem sagt er frá hrekkjavökuefni sem efnisveitan býður upp á. Aðrar efnisveitur hérlendar, eins og Vodafone, 365 og fleiri, eru einnig sneisafullar af hrollvekjandi efni, og í bíó má sjá blóð renna í kvikmyndum eins og Rökkur og Happy Death Day svo einhverjar séu nefndar. Þá er kvikmyndin Skrímslafjölskyldan eðli málsins samkvæmt full af skrímslum!
Þá sendi Netflix frá sér tilkynningu um að önnur þáttaröð Stranger Things væri komin í loftið!
„Þeir sem eru hrifnir af uppvakningum, blóði, innyflum, raðmorðingjum, hrollvekjum og öllu hinu ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í Sjónvarpi Símans Premium þessa hrekkjavökuna. Það ætti að vera auðvelt að valta yfir þessa þætti með ljósin slökkt og hjartamagnyl á kantinum. Eitthvað af þessu er ekki fyrir viðkvæma, það er bara þannig!,“ segir í kynningu Símans á efni sem boðið er upp á í efnisveitunni nú þegar hrekkjavakan er að ganga í garð.
Kíktu á stiklu frá Sjónvarpi Símans Premium hér fyrir neðan:
Sem fyrr sagði er önnur sería Stranger Things nú aðgengileg á Netflix, en fyrsta þáttaröðin sló í gegn í fyrra, og hentar einkar vel einnig um hrekkjavökuna að kíkja á þá seríu. Söguþráðurinn er eitthvað á þá leið að þegar ungur drengur týnist, þá komast íbúar í litlum bæ að ráðgátu með leynilegum tilraunum, og hræðilegum yfirnáttúrulegum öflum, og einni undarlegri lítilli stúlku.