Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikari hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn á glæpasögunni Snjóblindu eftir Ragnar Jónasson og voru samningar þess efnis undirritaðir á dögunum, að því er fram kemur á heimasíðu útgáfufyrirtækis Ragnars, Veraldar.
Á myndinni sem fylgir fréttinni, og er tekin af heimasíðu Veraldar, sjást þeir Ragnar og Þorvaldur handsala samninginn. Lengst til hægri er Bjarni Þorsteinsson útgáfustjóri Veraldar.
Þorvaldur Davíð er hvað þekktastur fyrir leik sinn í kvikmyndinni Svartur á leik. Ragnar Jónasson sendi Snjóblindu frá sér árið 2010 og var hún útnefnd ein af fjórum bestu skáldsögum haustsins í Þýskalandi í fyrra af tímaritinu Gala.
Aldraður rithöfundur deyr
Snjóblinda gerist á Siglufirði og segir frá því þegar ung kona finnst blóðug og hálfnakin í snjónum, nær dauða en lífi. Aldraður rithöfundur deyr á grunsamlegan hátt á æfingu hjá áhugaleikfélagi bæjarins, daginn fyrir frumsýningu. Ari Þór Arason, nýútskrifaður lögreglumaður, reynir að komast að því hvað er satt og hvað er logið í samfélagi þar sem engum virðist hægt að treysta. Einangrunin, myrkrið og snjórinn þrengja að honum, óttinn nær tökum á bæjarbúum og gleymdir glæpir fortíðar koma upp á yfirborðið.
Nýlega kom út þriðja bók Ragnars um Ara Þór lögreglumann og nefnist hún Rof og gerist á Norðurlandi, líkt og Snjóblinda, nánar tiltekið í eyðifirðinum Héðinsfirði.
Þorvaldur leiki aðalhlutverkið
Samningurinn miðast við að Þorvaldur Davíð leiki sjálfur Ara Þór, aðalpersónu bókarinnar, ásamt því að vera einn af framleiðendunum.