Brave – ný stikla

Stikla fyrir Brave, næstu mynd Pixar, er komin á netið. Myndin mun koma í bíó í ágúst á næsta ári og nú þegar eru teiknimyndaaðdáendur farnir að bíða óþreyjufullir. Ekki bætti úr að Pixar myndin í ár var sú fyrsta sem þótti virkilega slök.

Myndin fjallar um óþólinmóðu prinsessuna Meridu, sem er dóttir Fergusar konungs og Elinor drottningar. Hún er ekki allskostar hrifin af venjum samfélags síns og setur allt í uppnám er hún neitar að taka þátt í aldagamalli hefð og ákveður að finna lífi sínu eigin leið. Brave má kalla fyrsta ævintýrið í hefðbundnum skilningi frá Pixar, en myndin gerist á 10. öld í Skotlandi, og er sögð verða aðeins fullorðinslegri í tón en fyrri myndir fyrirtækisins. Þá er þetta fyrsta mynd Pixar þar sem aðalpersónan verður kvenkyns.

Nokkuð drama hefur einnig verið á bak við tjöldin við gerð myndarinnar, því að Brenda Chapman (The Prince of Egypt) sem átti hugmyndina af myndinni, og átti að leikstýra henni, var rekin í október 2010, og Mark Andrews settur í stólinn í hennar stað. Á öðrum vígstöðvum væri þetta merki um að lokaafurðin muni þjást, en við þurfum ekki að örvænta strax, því mikið af myndum Pixar hafa gengið í gegn um svipaða erfiðleika og jafnvel komið betur út fyrir vikið.

Axel kallaði myndina blöndu af Tangled og How to Train Your Dragon, sem hljómar ekki allskostar vitlaust. Er ég sá eini sem myndi bæta Braveheart við listann? Hér er allavega stiklan: