Mögulega verður nýja James Bond kvikmyndin, No Time to Die, lengsta Bond kvikmynd allra tíma, eða nærri þrír klukkutímar að lengd.
Við fylgdumst síðast með ævintýrum njósnara hennar hátignar í Spectre frá árinu 2015, og næstu ár á eftir hafa verið mörkuð af ýmsum áföllum sem tafið hafa komu næstu myndar. Bæði hafa leikstjórar hætt, meiðsli hafa sett strik í reikninginn og fleira.
En nú er sem sagt komið að því að berja Bond augum á ný, með Daniel Craig í síðasta skipti í hlutverki hetjunnar.
Orðrómur hefur verið í gangi um tíma um ógnarlengd kvikmyndarinnar, og breski miðillinn MailOnline segir nú frá því að kvikmyndahús hafi fengið þær upplýsingar að þau þurfi að taka frá amk. þrjár klukkustundir fyrir hverja sýningu á myndinni.
Það er mjög góð vísbending um lengdina að mati MailOnline. Sögur herma að myndin verði 174 mínútur, og vanti því aðeins sex mínútur upp í þrjá klukkutíma.
Dreifingaraðilar og kvikmyndahús fá að vita þetta með góðum fyrirvara til að geta skipulagt sig vel áður en að frumsýningu kemur. Sagt er að lengd myndarinnar helgist af því að framleiðendur hafi stöðugt verið að bæta við blaðsíðum í handritið, og tökurnar hafi farið langt fram úr áætlunum.
Opinber sögurþráður er þessi: Myndin hefst þar sem Bond er að slaka á í Jamaíka, eftir að hafa lagt byssuna á hilluna. En allt breytist þegar gamall vinur hans Felix Leiter frá bandarísku leyniþjónustunni CIA kemur og biður um aðstoð. Bond kemst nú á snoðir um ill áform dularfulls þorpara, sem býr yfir hættulegri nýrri tækni.
Myndin verður frumsýnd á Íslandi og annars staðar 8. apríl nk.
Kíktu á stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: