Óvæntir hlutir í No Time to Die

Enska No Time to Die leikkonan Naomie Harris, segir að áhorfendur megi eiga von á “rosalega óvæntum snúningum” í No Time to Die, nýju James Bond kvikmyndinni, sem væntanleg er í bíó á næsta ári.

Í kvikmyndinni mun Daniel Craig leika í síðasta skipti njósnara hennar hátignar, 007.

Söguþræðir Bond mynda Craig hafa allir tengst með einhverjum hætti, eins og segir á vef The Independent, og sú virðist einnig verða raunin í nýju myndinni, þar sem mörg kunnugleg andlit munu birtast á ný.

Þar á meðal er það Harris sjálf, sem leikur Eve Moneypenny, en hún birtist fyrst í Bond heimum í Skyfall, ásamt Ralph Fiennes, sem þar birtist sem hinn nýi M, yfirmaður James Bond. Þá snýr Jeffrey Wright aftur sem CIA leyniþjónustumaðurinn Felix Leiter, en hann kom fyrst við sögu í Quantum of Solace frá árinu 2008.

Í samtali við karlatímaritið GQ segir Harris að henni finnist handrit No Time to Die “frábært” og það hafi verið erfitt að leggja það frá sér.

“Það tengir saman Skyfall og Spectre,” sagði hún. “En með hrikalegum, svakalegum óvæntum atburðum og ég sagði bara “ó, vá”.  Þannig að ég held að við eigum eftir að sjokkera fólk all verulega.”

Handritið að No Time to Die fékk yfirhalningu frá Fleabag höfundinum Phoebe Waller-Bridge, eftir að leikstjórinn Danny Boyle hætti við að leikstýra myndinni. Framleiðendur eru sagðir svo spenntir yfir þeim viðbótum sem Waller-Bridge gerði, að þeir ætli að reyna að lokka hana aftur í næstu mynd, þá 26. í röðinni.  

No Time to kemur í bíó hér á landi 10. apríl 2020.