Illmennið snýr aftur

Eins og margir höfðu spáð, og í ljósi þess hvernig James Bond kvikmyndin Spectre endaði, þá virðist sem leikarinn Christoph Waltz muni snúa aftur í Bond 25 sem illmennið Blofeld, yfirmaður glæpasamtakanna Spectre, í næstu James Bond kvikmynd sem frumsýna á á næsta ári. Bond blaðamaðurinn Baz Bambigoye, sem nýtur virðingar í Bond heimum, fékk ábendingu frá gesti í Pinewood kvikmyndaverinu í Lundúnum, sem sá Ernst Stavro Blofeld, sem hét upphaflega Franz Oberhauser, á vappi í stúdíóinu. Waltz virðist hafa veifað viðkomandi og sagt “Þú sást mig ekki”, en gesturinn ákvað að taka áhættuna af því að leka fréttunum samt sem áður.

Waltz sór og sárt við lagði í aðdraganda Spectre, að hann myndi ekki koma við sögu í myndinni, en hann kom þó við sögu undir nafninu Oberhauser lungann úr myndinni. Oberhauser, sem er uppeldisbróðir James Bond, og er með þungar og bitrar tilfinningar í garð uppvaxtaráranna, opinberaði sig sem erkióvinurinn Ernst Stavro Blofeld seint í kvikmyndinni.

Rami Malek hefur nú þegar verið tilkynntur sem þorparinn í Bond 25, og því er erfitt að spá hvernig Blofeld mun koma inn í þá sögu – og þar sem engin opinber staðfesting liggur fyrir, þá eru þetta allt enn bara sögusagnir. En ef hann birtist, þá er það mögulega í einhverju aukahlutverki þar sem hann beitir fyrir sig undirsátum til að fremja sín illvirki.

Cary Joji Fukunaga leikstýrir myndinni, og handrit skrifar Neal Purvis og Robert Wade, ásamt Phoebe Waller-Bridge.

Aðrir helstu leikarar eru auðvitað Bond sjálfur, Daniel Craig, ásamt Ralph Fiennes, Naomie Harris, Rory Kinnear, Ben Whishaw, Jeffrey Wright, Lashana Lynch, Billy Magnussen, Ana De Armas, David Dencik og Dali Benssalah.

Tökur munu fara fram í Noregi, Jamaíka, Ítalíu og í Lundúnum.  Stefnt era ð frumsýningu 3. Apríl 2020.