Fyrsta ljósmyndin af Craig í nýju Bond myndinni No Time to Die

Fyrsta ljósmyndin af breska leikaranum Daniel Craig í hlutverki James Bond í næstu Bond mynd No Time to Die hefur verið birt.

Myndin birtist í kjölfar þess að tilkynnt var á Instagram síðu kvikmyndarinnar að tökum væri lokið, en með færslunni birtist ljósmynd af Craig ásamt leikstjóra myndarinnar, Cary Fukanaga.

https://www.instagram.com/p/B4D1yHpgFMX/?utm_source=ig_web_copy_link
Félagar á góðri stund.

Það var kvikmyndaritið Empire sem birti ljósmyndina.

Samkvæmt opinberum söguþræði myndarinnar þá hefst kvikmyndin þar sem Bond er að slaka á í Jamaíka, eftir að hafa lagt byssuna á hilluna. En allt það breytist þegar gamall vinur hans Felix Leiter frá bandarísku leyniþjónustunni CIA kemur og biður um aðstoð. Í hönd fer björgunaraðgerð til að bjarga vísindamanni sem hefur verið rænt, en þessi ferð verður mun hættulegri en búist var við, og 007 kemst á slóð dularfulls þorpara, sem býr yfir stórhættulegri nýrri tækni, en þetta erki-illmenni er leikið af engum öðrum en Óskarsverðlaunahafanum, og Bohemian Rhapsody leikaranum, Rami Malek.

Ralph Fiennes snýr aftur í hlutverki M í nýju myndinni, og Léa Seydoux verður aftur í hlutverki Dr Madeleine Swann. Ben Whishaw verður Q á ný.

Hér fyrir neðan er fyrsta myndin af Craig í hlutverkinu í nýju myndinni:

No Time to Die verður frumsýnd 8. apríl hér á Íslandi, en 3. apríl í Bretlandi.