Þrívíddarbjánar vinsælastir


Asnakjálkarnir Johnny Knoxville, Steve-O og félagar gerðu sér lítið fyrir og þeyttu sér á topp íslenska aðsóknarlistans um nýliðna helgi, og höfðu þar betur en hvorki meira né minna en fjórar aðrar nýjar myndir sem gerðu hosur sínar grænar fyrir áhorfendum.

Uppátæki Jackass-liðanna, í þrívídd að sjálfsögðu, drógu tæplega 4.800 manns í bíó um helgina á meðan sigurvegari síðustu viku, gamanmyndin Due Date, seig niður í annað sætið með um 3.900 áhorfendur. Í næstu tveimur sætum urðu svo heimildarmyndin umtalaða Gnarr og spennumyndin Unstoppable, sem skartar Denzel Washington, Chris Pine og bandbrjálaðri lest í aðalhlutverkum. Hinar tvær nýju myndirnar, unglingagamanið Easy A og barnaævintýrið Arthur 3: Tveggja heima stríðið, þurftu svo að sætta sig við 7. og 8. sætið á eftir RED og Ævintýrum Samma, en mjög mjótt var á mununum milli þriðja og áttunda sætisins, eða aðeins um 300.000 krónur í aðgangseyri og var aðsóknin tæplega 900 til rúmlega 1.200 manns á allar þessar myndir. Því dreifðist aðsóknin mjög jafnt enn eina helgina, sem helgast af óvenjugóðu úrvali mynda um þessar mundir.

Due Date er á hraðleið á lista yfir 20 aðsóknarmestu myndir ársins, því eftir aðeins tvær helgar í sýningu er hún komin í rúma 16.000 áhorfendur. Til marks um hraða endurnýjun á topp 10-listanum er öldungur vikunnar teiknimyndin Legend of the Guardians, sem var á sinni fjórðu sýningarhelgi og náði níunda sæti. Aðeins neðar á listanum eru svo hinar þaulsetnu myndir Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið í sinni tíundu viku (og rúmlega 37.000 áhorfendur) og Despicable Me í sinni elleftu viku (með rúma 27.000 áhorfendur) og verða án efa í sýningum út nóvember.

Jackass-liðar þurfa þó líklega að sætta sig við að vera aðeins eina helgi á toppnum, því um næstu helgi verður Harry Potter and the Deathly Hallows – Part I frumsýnd með pompi og prakt (og forsýnd kvöldið áður, ekki gleyma því) og mun án nokkurs vafa eiga eina af stærstu frumsýningarhelgum ársins.

Hvaða mynd sáuð þið svo um helgina?

-Erlingur Grétar