Cameron ræðir nýja Terminator við Deadpool leikstjóra

Segja má að Terminator kvikmyndaserían hafi náð hæstum hæðum í myndum númer 1 og 2, en síðasta mynd, sú fimmta í röðinni, Terminator Genisys, náði til dæmis ekki að standa almennilega undir væntingum, þó svo að Arnold Schwarzenegger hafi leikið í henni, og James Cameron, leikstjóri fyrstu tveggja myndanna, hafi lagt blessun sína yfir hana.  Nú gæti verið nýtt blómaskeið í vændum því árið 2019 fær Cameron aftur til sín hluta af höfundarréttinum á myndunum, sem hann seldi frá sér á sínum tíma.

Movies_Films_T_The_Terminator_010629_-12

Nú er því horft til þess hvort að hann ætli ekki að halda uppteknum hætti og bæta við eins og einni Terminator mynd. Svo virðist vera raunin því hann á nú í viðræðum við Deadpool leikstjórann Tim Miller, um að leikstýra þeirri mynd.

Flestir hefðu kannski viljað fá Cameron sjálfan til að leikstýra, til að tryggja góða útkomu, en að hafa hann sem framleiðanda ætti þó að duga til að gera góða mynd. Cameron er önnum kafinn vegna Avatar framhaldsmyndanna, en hefur þó gefið sér tíma til að ráðleggja öðrum kvikmyndaleikstjórum, eins og Robert Rodriguez í Alita: Battle Angel, eins og Empire greinir frá.

Samkvæmt kvikmyndavefnum Deadline þá ætlar Cameron og peningamaðurinn á bakvið Genisys, David Ellison, að fá að borðinu virta vísindaskáldsagnahöfunda til að skrifa handritið. Ellison er enn eigandi ýmissa Terminator réttinda, eftir að hann keypti þau af systur sinni Megan Ellison árið 2013. Þau hafði Megan sjálf keypt árið 2011, fyrir 20 milljónir Bandaríkjadala.

Allt er þetta nú á byrjunarstigi, en samt gefur þetta góðar vonir um eina góða Terminator mynd til viðbótar.