Chloe Moretz leikur vændiskonu

Nýjasta kvikmynd Antoine Fuqua, The Equalizer mun skarta Denzel Washington og Chloe Moretz í aðalhlutverkum. Kvikmyndin er gerð eftir þáttum sem voru sýndir á níunda áratugnum og fjölluðu um fyrrverandi lögreglumann sem tók það að sér að hjálpa fórnarlömbum sem lentu í hótunum.

Söguþráður The Equalizer er óljós, það er þó búið að gefa út að Washington muni leika lögreglumanninn í kvikmyndinni og hin 16 ára gamla Chloe Moretz tók nýverið að sér aðalhlutverk í myndinni. Það hlutverk er heldur frábrugðið fyrrverandi hlutverkum leikkonunar, því í þetta skipti mun hún leika vændiskonu.

Hlutverk Moretz í The Equalizer var fyrst skrifað fyrir konu á aldrinum 25-30 ára en nú hafa framleiðendur gefið það út að handritið hafi breyst og að hlutverkið svipi til hlutverks Jodie Foster í kvikmyndinni Taxi Driver. Foster lék þá unga stelpu sem var á villigötum í lífinu og var byrjuð að selja sig til þess að sjá fyrir sér.

Moretz er rísandi stjarna í Hollywood og hefur getið sér gott orð í kvikmyndum á borð við Kick-Ass og Hugo.

Antonie Fuqua og Denzel Washington hafa áður unnið saman við kvikmyndina Training Day og vann meðal annars Washington Óskarsverðlaun fyrir hlutverk sitt í þeirri kvikmynd.