Chris Evans fór til sálfræðings, áður en hann varð Captain America

Margir myndu örugglega vera fljótir að undirrita samning um möguleikann á að leika í fjölda risastórra Hollywood ofurhetjumynda, ef þeim byðist hann, og því kemur á óvart að Chris Evans, aðalleikarinn í Captain America: The First Avenger, hafii verið hikandi þegar samningurinn lá á borðinu: „Þetta er skuldbinding um að gera sex bíómyndir, sem gætu teygst yfir 10 ára tímabil, og ég held að ég hafi ekki verið 100% viss um að það hafi verið markmið mitt í lífinu, að verða einhver rosaleg kvikmyndastjarna,“ sagði Chris í samtali við Access Hollywood þegar myndin var kynnt á dögunum.
„Svo er þetta líka breyting á lífsstíl,“ bætti Chris við. „Það er ekki á hverjum degi sem þú ert að gera mynd sem svo margir bíða eftir og hefur yfir sér þennan stórmyndastimpil. Þú missir ákveðið persónufrelsi, sem ég vil reyna að halda í. Þannig að ég þurfti aðeins að hugsa mig um.“

Chris Evans er 30 ára gamall, og hefur áður leikið önnur Marvel teiknimyndasöguhlutverk, en hann lék Johnny Storm/Human Torch í báðum Fantastic Four myndunum. Hann segir að áður en hann skrifaði undir samninginn um Captain America, hafi hann ákveðið að fara til sálfræðings til að ræða málin. „Þetta var einn af þessum hlutum þar sem ég hugsaði að ég yrði að vera með hausinn í lagi, áður en ég myndi skuldbinda mig,“ sagði leikarinn í viðtalinu, en greinilega hefur allt endað vel, enda er kappinn á leið á Hvíta tjaldið í búningi Captain America nú á næstu dögum.