Covid-smit á tökustað Mission: Impossible

Tökum á sjöundu kvikmyndinni í Mission: Impossible myndabálknum hefur verið frestað á ný eftir að greindist kórónaveirusmit á meðal tökuliðs. Framleiðendur staðfestu þetta í fréttatilkynningu. Þar er fullyrt að gert hafi verið 14 daga hlé á tökum.

Þetta er ekki fyrsta töfin á tökum myndarinnar en skömmu eftir að þær hófust í febrúar 2020 var tökum snarlega hætt í Fen­eyjum vegna heims­far­aldursins.

Allt hófst svo að nýju í septem­ber og hafa tökur farið fram á Ítalíu, í Noregi og á Bret­landi. Fram­leiðsla var svo stöðvuð um stund í októ­ber eftir að tólf starfs­menn á setti smituðust á Ítalíu af vírusnum.

Í desember síðastliðnum komst Tom Cruise, aðalleikari og framleiðandi myndarinnar, í heimspressuna fyrir að tryllast fyrir framan tökuliðið vegna starfsreglna tengdum CO­VID-19 smiti á settinu. Atvikið náðist á upptöku og ávarpaði leikarinn um fimm­tíu starfs­menn og undirstrikaði að hann sætti sig ekki við af­sökunar­beiðnir vegna málsins.

„Þið getið sagt þetta við fólkið sem er að missa heimili sín af því að iðnaðurinn okkar er lokaður,“ sagði leikarinn og bætti svo við: „Við erum að skapa þúsundir starfa. Ég vil ekki sjá þetta aftur! Aldrei! Ef þið fylgið þessu ekki, eruð þið rekin!“


Áætlað er að Mission: Impossible 7 (sem mun væntanlega koma til með að heita eitthvað annað) komi í bíó í maí árið 2022.