Cruise í Mummy – Fyrstu myndir!

Fyrsta myndin af Tom Cruise og Annabelle Wallis í nýju endurræsingunni af Mummy myndunum birtist í dag, en tökur eru hafnar í Oxford á Englandi.

Ekki er vitað nákvæmlega hvað er í gangi á þessum myndum, en svo virðist sem leikarinn og meðleikkona hans, hafi staðið í ströngu og séu að kasta mæðinni.

Sofia Boutella leikur einnig eitt af aðalhlutverkunum, sjálfan aðal óþokkann. Þetta er í fyrsta skipti í sögu Mummy seríunnar sem kona leikur hlutverk múmíunnar sjálfrar.

Sagan í nýju myndinni á sér stað í nútímanum. Cruise leikur fyrrum sérsveitarmann en Wallis leikur vísindamann, þó upphaflega hafi verið talað um að hún myndi leika fornleifafræðing, en hvoru tveggja er væntanlega rétt.  

Alex Kurtzman leikstýrir myndinni sem ekki hefur enn fengið nafn, annað en Ónefnd Endurræsing Múmíunnar. Í frétt MovieWeb um málið er sagt að myndin muni innihalda meira af hrollvekjandi atriðum en boðið var upp á í Mummy myndum Brendan Fraser, en sú sería hóf göngu sína árið 1999, með Fraser og Rachel Weisz í aðalhlutverkum.

Nýja myndin verður sú fyrsta í nýjum Skrímslaheimi Universal kvikmyndaversins, sem gerist öll í samtímanum. Fyrsta myndin í Skrímslaheiminum ( Monster Universe ) var Dracula Untold, sem frumsýnd var árið 2014, en í inngangi hennar færðist sagan inn í nútímann og tengist þannig þeim myndum sem á eftir koma.

Aðrar myndir sem væntanlegar eru í Skrímslaheiminum eru The Invisible Man með Johnny Depp í aðalhlutverki,  Van Helsing, The Bride of Frankenstein og The Wolfman.