Daufur Neeson í slöppum hefndartrylli

Nels Coxman (Liam Neeson) sér um snjómokstur í smábæ nálægt Denver og gæti ekki verið kátari með starfið sitt og tilveruna. Það breytist þó fljótt þegar sonur hans Kyle (Micheál Richardson) lætur lífið að því er virðist vegna of stórs skammts af eiturlyfjum. Nels og eiginkona hans Grace (Laura Dern) trúa því vart að sonur þeirra hefði neytt eiturlyfja og þeim gengur illa að vera til staðar fyrir hvort annað í sorginni. Fljótlega kemst Nels á snoðir um að Kyle var í raun myrtur vegna 10 kílógramma stulds á kókaíni sem hann var var ekki einu sinni sekur um. Hann kemst að því að sonur hans var myrtur af hrottum á vegum Trevor „Viking“ Calcote (Tom Bateman), valdamikils glæpamanns í Denver. Nels heldur þá af stað í hefndarleiðangur og fyrr en varir eru tvær stríðandi fylkingar komnar í stríð og mikið blóðbað í uppsiglingu.

Cold Pursuit“ á sér norska fyrirmynd en „In Order of Disappearence“ (2014) var leikstýrt af Hans Petter Moland og skartaði Stellan Skarsgard í aðalhlutverki. Myndin þótti afar vel heppnuð og Moland sér svo sjálfur um bandarísku endurgerðina. Það kemur í raun ekki mikið á óvart þar sem mikill skandinavískur bragur er á „Cold Pursuit“ frá byrjun til enda og snævi þakið umhverfið gefur myndinni sannarlega sérstöðu og myndar góða stemningu. En því miður er lítið annað sem hægt er að telja myndinni til hróss.

Hefndartryllar eru upp til hópa afar einfaldar formúlur að fyrsta flokks skemmtun. Áhorfandinn fær alla jafna að sjá vonda menn finna fyrir þunga réttlætisins sem oftar en ekki er borið fram af venjulegu fólki með sterka réttlætiskennd. Þetta er gamalt og gott og sést ágætlega í „Death Wish“ myndunum (1974 og 2018) með Charles Bronson og svo Bruce Willis en 44 ár skilja á milli þeirra en ekkert í grunninn hefur tekið breytingum. Þessar myndir hafa meira svigrúm til að búa til atburðarrás þar sem áhorfandinn er sáttur við að horfa á limlestingar, pyntingar og ofbeldisfulla dauðdaga framreidda af löghlýðnum einstaklingum og vilja sjá þá komast upp með það. „Cold Pursuit“ tikkar í þau box ágætlega en hún á við svakalega tilvistarkreppu að etja og getur ekki ákveðið sig með hvaða hætti á að segja söguna.

Allt of margar persónur eru kynntar til sögunnar og framvindan verður of flókin og langdregin fyrir svona einfeldnislega mynd. Flestum karekterum eru gefnir frekar sérkennilegir persónuleikar og ef handritið væri sómasamlega skrifað myndu einhver af þessum atriðum og samtölum vekja lukku en svo er ekki. Nels hverfur nánast í bakgrunninn í dágóða stund þegar glæpafjölskylda sem samanstendur af innfæddum Ameríkönum dregst inn í atburðarrásina en hægt hefði verið að sleppa þeim alfarið og það sama á einnig við um tvo lögregluþjóna sem þjóna litlum sem engum tilgangi.

Ofbeldið er einnig frekar harðneskjulegt og óþægilegt að horfa á en það stangast all verulega á við þann kómíska undirtón sem „Cold Pursuit“ virðist á stundum vilja tileinka sér. Það er þó ekki farið alla leið með þennan húmor en hálf kjánaleg atriði skjóta upp kollinum sem eiga ef til vill að sýna að kvikmyndagerðarmennirnir eru meðvitaðir um að taka sig ekki of hátíðlega. Svolítið er spilað með að hinn venjulegi Nels er hálfgerður fiskur á þurru landi í þessum aðstæðum en heilt yfir er hann töluvert á heimavelli þegar hann ræðst að hrottunum. En myndin fær plús í kladdann fyrir að tóna niður sorakjaftinn sem oftar en ekki fær að fljóta hömlulaust í myndum sem þessum.

Neeson er í töluverðu uppáhaldi hjá rýni en hér virkar hann frekar áhugalaus og daufur. Þessi gæðaleikari hefur margsannað sig í álíka rullum og nærvera hans lyftir myndinni en ekki mikið. Gæðaleikkonan Dern leikur eina af mörgum persónum hér sem þjóna litlum tilgangi og hún yfirgefur svæðið frekar fljótlega og Tom Bateman er algjörlega óþolandi í hlutverki glæpakóngsins. Hér er búin til persóna með enga samvisku en fulla af alls kyns sérvisku og Bateman hefur ekki hugmynd um hvernig á að koma honum frá sér.

“Lítil þúfa veltir þungu hlassi” gæti verið boðskapurinn hér þar sem heljarinnar atburðarrás fer í gang þegar lítill verknaður er framkvæmdur. „Minna er meira“ er speki sem fleiri hefndartryllar eiga að tileinka sér og hefði „Cold Pursuit“ haldið sig við einn stíl, haft mun færri persónur og einfaldað „plottið“ og framvinduna hefði hún án efa vakið meiri lukku. Kannski virkar þetta allt saman miklu betur í norsku frummyndinni og eitthvað hreinlega tapast í þýðingunni.