DC og Warner svara The Avengers

Já, ég er að tala um Justice League-mynd. Það kemur nú samt ekki svo mikið á óvart að fyrirtækin taki þessa ákvörðun, enda situr The Avengers í þriðja sæti yfir tekjuhæstu kvikmyndir allra tíma. Til að hafa það á hreinu þó, þá er það ekki í plönunum hjá Warner Bros. að skapa þessa myndasögu-tengingu á milli kvikmynda eins og Marvel byrjaði á árið 2008. Á tímabili stóð það til, örlagaríka árið 2008 til að vera nákvæmur, en eftir að það kom í ljós að Christopher Nolan myndi sjá um bæði Batman– og Superman-endurgerðirnar, var ákveðið að halda persónunum aðskildum.

Hins vegar, áður en farið var út í samtengdan kvikmyndaheim, var búið að fylla öll stærstu hlutverkin í máttugu liði Justice League, en viðbrögð aðdáenda við leikaraúrvalinu voru alls ekki hvetjandi.

Social Network-tvíburinn Armie Hammer setti á sig grímu Batmans, nýstirnið D.J. Cotrona bar merki Supermans, rapparinn Common skartaði hring Green Lanterns, Adrien Brody klæddist rauða samfelling The Flash og módelið Megan Gale fékk órjúfanlegu armbönd Wonder Woman. Þessi holdgun verkefnisins, með Mad Max-leikstjóranum George Miller í fararbroddi, dvínaði hreinlega út og árið 2010 var það formlegt að myndin væri dauð.

Sem betur fer fann verkefnið nýtt líf í dag þegar að Warner Bros. fengu handritshöfund Gangster Squad, Will Beall, til að elda upp glænýtt og ferskt handrit fyrir ofurhetjugrautinn. Að sögn verða þeir Batman, Superman og Green Lantern aðalfókusinn, en það styrkir ennþá meira við bakið á stakri kvikmynd; enda er Batman-serían að hvíla sig til ársins 2015; Superman-serían fær ferska endurgerð á næsta ári, en hún verður ein á báti; og Green Lantern-persónan er í lausu lofti eftir að kvikmyndin floppaði.

Enn vitum við ekki hvenær stórvirkið kemur út, en það verður athyglisvert að sjá hvort að Warner og DC nái að skapa eitthvað almennilegt út úr þessu.